Innlent

Ítarlegur gagnabanki um einstaklinga

Verði frumvarp að lögum getur ráðherra safnað í gagnabanka og rannsakað öll tiltæk gögn um fjármál allra Íslendinga.
Verði frumvarp að lögum getur ráðherra safnað í gagnabanka og rannsakað öll tiltæk gögn um fjármál allra Íslendinga. Fréttablaðið/Vilhelm

Persónuvernd Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila eins og hún er áætluð í frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi veldur Persónuvernd áhyggjum í ljósi ákvæðis í stjórnarskránni um friðhelgi einkalífs.

Persónuvernd segist hafa áhyggjur af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem yrði vegna rannsóknarinnar, „ekki síst í ljósi tilhneigingar til að framlengja varðveislutíma upplýsinga í gagnagrunnum sem til verða með upplýsingum um einstaklinga," eins og segir í umsögn stofnunarinnar.

Verði frumvarpið að lögum mun efnahags- og viðskiptaráðherra verða heimilt að sækja upplýsingar um fjárhag einstaklinga og fjölskyldna frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá, Fjársýslu ríkisins, stærstu sveitarfélögum landsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins.

„Mun hjá stjórnvöldum verða til persónugreinanlegur gagnagrunnur með ítarlegum fjárhagsupplýsingum um alla borgarana," segir Persónuvernd. Næstu þrjú árin muni stjórnvöld safna ítarlegum upplýsingum um fjárhag fjölskyldna og einstaklinga. Þó svo að gert sé ráð fyrir að rannsóknin sé tímabundin muni hún standa yfir um langt skeið.

„Er til þess að líta að reynslan sýnir að þegar samþykkt eru lög um gagnagrunna á vegum stjórnvalda er tilhneiging til þess að framlengja þann varðveislutíma sem upphaflega hefur verið samþykktur," segir Persónuvernd. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×