Erlent

Danskir þingmenn deila um launaskerðingu

Deila er komin upp á danska þinginu um hvort þingmenn eigi að taka á sig launaskerðingu eða ekki. Launaskerðingin er hugsuð sem liður í umfangsmiklum niðurskurði á fjárlögum danska ríkisins.

Tillaga um að þingmennirnir taki á sig tæplega 5% launlækkun næstu tvö árin var lögð fram af forystumönnum Venstre og Dansk Folkeparti en í þeim flokkum er jafnframt mesta andstaðan gegn henni sem og hjá öðrum hægri sinnuðum þingmönnum.

Samkvæmt frétt um málið í Berlingske Tidende bendir allt til að tillagan verði felld á þinginu. Þeir sem styðja tillöguna segja að rétt sé að þignmenn taki á sig launaskerðingu eins og aðrir ríkisstarfsmenn í þeim niðurskurði sem framundan er. Með honum er ætlunin að ná fjárlagahalla Danmerkur niður í viðmiðunarmörk ESB sem eru að hallinn megi að hámarki vera 3%.

Þeir sem mótmæla niðurskurði á launum sínum segja að danskir þingmenn séu ekki ofaldir af launum sínum miðað við það sem þeim býðst í einkageiranum. Árslaun danskra þingmanna eru nú um 540.000 danskar krónur eða tæpar 12 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×