Innlent

Ábyrgðarmanni stefnt þrátt fyrir glóðvolgt frumvarp

Hafsteinn Hauksson skrifar
Alþingishúsið.
Alþingishúsið.

Daginn eftir að Lánasjóður íslenskra námsmanna stefndi skuldara og föður hans fyrir héraðsdómi Reykjavíkur var manninum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Maðurinn hefur áhyggjur af ábyrgðarmanninum föður sínum, en samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi verður kröfuhöfum óheimilt að krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldara í greiðsluaðlögun.

29. apríl síðastliðinn var gefin út stefna á hendur Gunnari Kristni Þórðarsyni vegna vanskila hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Föður Gunnars var einnig stefnt, en hann er ábyrgðarmaður lánsins. Aðeins sólarhring síðar var Gunnari svo veittur úrskurður um sértæka greiðsluaðlögun, en samkvæmt frumvarpi um greiðsluaðlögun sem nú liggur fyrir Alþingi verður kröfuhöfum óheimilt að krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldara í greiðsluaðlögun.

Gunnar segir réttaráhrif greiðsluaðlögunarinnar sambærileg við greiðslustöðvun og honum sé því beinlínis óheimilt að greiða samningskröfur á meðan, þar á meðal kröfu Lánasjóðsins. Lánasjóðurinn hyggst þrátt fyrir það ekki afturkalla stefnuna, því Gunnari hafi borist stefnan áður en heimild til greiðsluaðlögunar var veitt. Lánasjóðurinn hefur þó boðið Þórði að óska eftir fresti fyrir héraðsdómi þar til greiðsluaðlögunin liggur fyrir, og muni sjóðurinn ekki aðhafast á meðan.

Gunnar segist upplifa óvissu gagnvart kröfuhöfum sínum eftir að hann hóf greiðsluaðlögunarferlið. Hann segir Lánasjóðinn þó hafa gengið harðar fram en aðra kröfuhafa og hefur miklar áhyggjur af föður sínum sem er ábyrgðarmaður lánsins.

„Það er ömurlegt, það er hryllilegt til þess að líta að foreldrum mínum sé stefnt, vammlausu og grandvöru fólki, sem hefur alltaf staðið í skilum," segir Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×