Innlent

Barnaníð: Kærum fækkar gríðarlega

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mun færri kærur hafa borist lögreglunni vegna nauðgana á börnum það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins bárust embættinu átta kærur vegna nauðgana á börnum undir fimmtán ára en í lok september á síðasta ári voru kærurnar 32. Fyrstu níu mánuði ársins þar á undan voru kærurnar 26. Þetta kemur fram í samantekt Ríkislögreglustjóra og eru þar teknar tölur af landinu öllu.

Öflugt forvarnarstarf ber árangur

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir varhugavert að lesa of mikið í þessar tölur en telur þær gefa ákveðna vísbendingu um að forvarnarstarf gegn kynferðislegri misnotkun barna hafi borið árangur. Hann bendir á að síðustu misseri hafi fallið þungir dómar gegn barnaníðingum sem mögulega hafi fælingaráhrif. Einnig séu forsjáraðilar barna meðvitaðri en áður um þessi mál.

Þegar skoðaðar eru kærur vegna kynferðislegrar áreitni gegn börnum kemur í ljós að sextán kærur hafa komið inn á borð lögreglu það sem af er ári. Þetta er svipaður fjöldi og í fyrra, en þá höfðu átján mál verið tilkynnt í lok september. Árið þar áður var fjöldinn hins vegar miklu meiri. Þá bárust 43 kærur vegna kynferðislegrar áreitni gegn börnum.

Smellið á meðfylgjandi súlurit til að stækka þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×