Innlent

Segir flokkinn sterkan þrátt fyrir gagnrýni

Sigríður Mogensen skrifar
Gagnrýni kom fram á flokksráðsfundi Vinstri grænna á forystu flokksins, og sagði einn fundarmanna flokkinn skiptast í tvennt. Steingrímur J. Sigfússon segir flokkinn koma sterkan og samstilltan út úr fundinum.

Boðaður niðurskurður á næsta ári bar hátt á fundi Vinstri grænna í dag. Fundarmenn lýstu yfir eindregnum vilja til að endurskoða niðurskurðinn, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu og á heilbrigðisstofnunum út á landi. Þó voru fundarmenn ekki sammála um hversu langt ætti að ganga í þeim efnum. Tekist var á um tillögu um að endurskoða fjárlögin frá grunni og forgangsröðun í útgjöldum ríkisins. Segja má að við afgreiðslu þeirrar ályktunar hafi átakalínur innan flokksins komið skýrt fram en meirihluti samþykkti að vísa málinu til þingflokksins og ríkisstjórnarinnar.

Formaður flokksins segist sáttur við þá niðurstöðu. „Í það heila tekið tel ég að flokkurinn komi sterkur og samstilltur út úr fundinum, forystan hefur mjög skýrt umboð og eindreginn stuðningur við áframhaldandi þáttöku okkar í ríkisstjórn," segir Steingrímur.

Nokkrir fundarmenn gagnrýndu forystu flokksins harðlega, og sögðust ósáttir við linnulausan ágreining innan þingflokksins um hin ýmsu mál. Einn fundarmanna sagði að í vinstri grænum væru tveir flokkar. „Ég held að Vinstri grænir ættu að taka þetta til alvarlegrar athugunar að grasrótin, hún fer. Hvað er þá eftir?," spurði fundarmaðurinn.

„Má ég leyfa mér að benda á að hér koma saman til fundar, þingmenn og varaþingmenn, allir sveitastjórnarfulltrúar, formenn .... Þetta er mjög breiður hópur sem endurspeglar grasrót flokksins og það á enginn einkarétt á því að tala í nafni hinna almennu flokksfélaga," sagði Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×