Innlent

Dylgjur um getuleysi eru alveg rakalausar

Forstjóri Íslenska gámafélagins bar Sorpstöð Suðurlands þungum sökum. Formaður stjórnar Sorpstöðvarinnar segir rangfærslur og rakalausar ávirðingar ekki styrkja framþróun í úrgangsmálum.  Fréttablaðið/GVA
Forstjóri Íslenska gámafélagins bar Sorpstöð Suðurlands þungum sökum. Formaður stjórnar Sorpstöðvarinnar segir rangfærslur og rakalausar ávirðingar ekki styrkja framþróun í úrgangsmálum. Fréttablaðið/GVA
„Forstjórinn þekkir manna best til þessara mála og veit að dylgjur hans eiga ekki við nein rök að styðjast,“ segir Örn Þórðarson, formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, um ásakanir Jóns Frantzsonar, forstjóra Íslenska gámafélagsins, á hendur Sorp­stöðinni.

Í viðtali við Fréttablaðið og í grein í Sunnlenska fréttablaðinu fyrir skömmu sakaði Jón Frantzson forsvarsmenn Sorpstöðvarinnar um fyrirhyggjuleysi í að finna nýjan urðunarstað fyrir Sunnlendinga í stað urðunarstaðar í Kirkjuferjuhjáleigu sem lokað var í desember. Hann sagði að Íslenska gámafélagið hefði lagt fram kæru vegna meintra brota á bæði stjórnsýslu- og samkeppnislögum. Kæran væri byggð á ákvæði í samningi Sorpstöðvarinnar og Sorpu um að allur endurvinnanlegur úrgangur af Suðurlandi færi ásamt öðru rusli til Sorpu á Álfsnesi.

Örn Þórðarson segir að forstjóri Íslenska gámafélagsins viti að dylgjur hans um fyrirhyggju- og getuleysi stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands varðandi leit að nýjum urðunarstað séu órökstuddar. „Vinna Sorpstöðvar Suðurlands hefur byggst á þekkingu, framsýni og áhuga á að leita hagstæðustu og hentugustu leiða,“ segir Örn sem kveður stjórn Sorpstöðvarinnar alltaf hafa unnið að því að hafa úrgangsmál á Suðurlandi í eins góðum farvegi og aðstæður leyfi.

Varðandi nýjan urðunarstað á Suðurlandi segir Örn að eftir hertar reglur á sviði úrgangsstjórnunar hafi sveitarfélög á suðvesturhorni landsins tekið upp samstarf og gert ráð fyrir sameiginlegum urðunarstað fyrir suðvesturhornið.

„Í kjölfar hrunsins kom síðan fram áhugi hjá sveitarfélögum á Suðurlandi um að opnaður yrði nýr urðunarstaður á Suðurlandi í stað þess að nýta einn sameiginlegan stað fyrir allt suðvesturhornið. Unnið hefur verið að slíkri lausn síðan þá,“ bætir Örn við og ítrekar að farið sé eftir lögum og reglum og eftir þeim markmiðum sem stjórnvöld og sveitarfélög á Suðurlandi hafi sett sér.

„Í dag eru þessi markmið afar metnaðarfull, en þeim fylgir aukinn kostnaður fyrir íbúa og fyrirtæki. Það hefur alltaf legið fyrir. En um leið fylgir þeim aukinn samfélags- og umhverfislegur ávinningur,“ útskýrir forstjóri Sorpstöðvarinnar og kallar eftir áframhaldandi góðu samstarfi allra sem koma að málefnum úrgangsstjórnunar, jafnt opinberra sem einkaaðila: „Rangfærslur og rakalausar ávirðingar eru ekki rétta leiðin til að styrkja þá framþróun í úrgangsmálum sem fram undan er. Sérstaklega ekki þegar talað er gegn betri vitund.“

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×