Lífið

Gói verður bara á skjánum til áramóta

Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri RÚV, segir að Hringekja Góa eigi eftir að slípast til og mýkjast. Hann verður hins vegar bara á dagskrá til áramóta.
Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri RÚV, segir að Hringekja Góa eigi eftir að slípast til og mýkjast. Hann verður hins vegar bara á dagskrá til áramóta.

„Eftir áramót kemur söngvakeppnin, það var alltaf meiningin að halda þessum þætti til áramóta og svo tæki söngvakeppnin við,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri RÚV. Hringekjan, skemmtiþáttur Guðjóns Davíðs Karlssonar, fór í loftið á laugardaginn. Guðjón upplýsti þar að síðasti þátturinn yrði í desember.

Sigrún vill ekki meina að þetta sé enn eitt dæmið um niðurskurð hjá RÚV en hingað til hefur verið rými fyrir bæði Spaugstofuna og Söngvakeppni Sjónvarpsins. „Þetta er klukkutími en Spaugstofan var hálftími, Það er bara þess vegna sem þetta er gert. Hins vegar, ef þessi þáttur gengur vel þá gætum við sett hann, hægt og bítandi, í nýtt form. En eins og staðan er í dag þá verður hann fram í desember.“

Fyrsti þátturinn var helgaður Vestmannaeyjum en fékk vægast sagt harðar viðtökur ef marka má samskiptasíðuna Facebook. Illugi Jökulsson rithöfundur skrifaði til að mynda: „Það sem það þætti hallærislegt ef Reykvíkingar leyfðu sér svona hreppagrobb og bæjarbelging, eins og þátturinn Hringekjan virðist eiga að ganga út á!“ Þetta virðist þó ekki hafa bitið á þá 31 sem gerðust aðdáendur Facebook-síðu þáttarins. „Þetta var fyrsti þátturinn og hann á eftir að slípast til og mýkjast. Ég trúi því að hann eigi eftir að verða nokkuð góður,“ segir Sigrún.

Söngvakeppni Sjónvarpsins verður að sögn Sigrúnar af svipaðri stærðargráðu og hefur verið undanfarin ár. Ekki hefur verið gengið frá því hverjir verða kynnar en eins og Fréttablaðið hefur greint frá eru þær Eva María Jónsdóttir og Ragnhildur Steinunn báðar í fæðingarorlofi.- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.