Lífið

Bjartmar kærir nafnaþjóf á netinu

Einhver óprúttinn aðili hefur skrifað athugasemdir á netinu undir nafni Bjartmars Guðlaugssonar. Nú hefur tónlistarmaðurinn fengið nóg og ætlar að kæra málið til lögreglu.Fréttablaðið/Hari
Einhver óprúttinn aðili hefur skrifað athugasemdir á netinu undir nafni Bjartmars Guðlaugssonar. Nú hefur tónlistarmaðurinn fengið nóg og ætlar að kæra málið til lögreglu.Fréttablaðið/Hari

Bjartmar Guðlaugsson er kominn með IP-tölu net-níðings sem hefur verið að rífast við fólk á bloggsíðum síðan í mars undir hans nafni.

„Það er einhver api sem er að misnota nafnið mitt, vitnar í textana mína sem sína og skrifar í fyrstu persónu Bjartmars Guðlaugssonar,“ segir tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson. Hann stendur í sérkennilegu stappi. Einhver, undir hans nafni, hefur verið að pesta bloggara á netinu og stofna til illdeilna og rifrilda. Bjartmar hyggst bregðast við þessu, hefur fengið IP-tölu netníðingsins hjá tónlistarsérfræðingnum Jens Guð og ætlar að kæra málið til lögreglu. „Hann er augljóslega að þykjast vera ég, það er enginn annar Bjartmar Guðlaugsson sem hefur texta á borð við Fúll á móti.“

Tónlistarmaðurinn segir þetta vera einstaklega hvimleitt fyrir sig vegna þess að hann hafi aldrei á ævi sinni skrifað athugasemd við bloggfærslu, hann sé ekki einu sinni með bloggsíðu sjálfur og þaðan af síður Facebook. „Ég er ekkert á netinu, ég er miklu meira fyrir blekpenna en lyklaborð. Ég les blogg og mér finnst það góður vettvangur fyrir lýðræðið en ég þoli ekki þegar menn skrifa undir fölskum formerkjum.“ Tónlistarmaðurinn segir það hafa verið ótrúlegt að lesa skrif nafnaþjófsins. „Mér er bara meinilla við þetta.“

Bjartmar upplýsir þar að auki að ef hann fyndi hjá sér þörf til að segja honum til syndanna myndi hann ekki gera það í gegnum netið. „Það yrði bara gert undir fjögur augu, ekki í athugasemdakerfi á netinu. Það myndi bara ekki samræmast mínu eðli.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.