Innlent

Ármann vill ekki sameinast Reykjavík

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ármanni finnst skynsamlegra að sameina minni sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og halda Reykjavík þar fyrir utan
Ármanni finnst skynsamlegra að sameina minni sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og halda Reykjavík þar fyrir utan

Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi, telur ekki heillavænlegt að Kópavogur og Reykjavík verði sameinuð. „Mér finnst alveg út í bláinn að sameina tvö af stærstu sveitarfélögum landsins þannig að úr verði um 150 þúsund manna sveitarfélag," segir Ármann. Honum finnst liggja mun beinna við að ef sameina eigi sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þá ætti að sameina þau smærri en halda Reykjavík sér. Þannig myndi skapast meira jafnvægi á milli sveitarfélaga en að búa til eitt svo stór að það teldi tæpan helming allra landsmanna.

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur viðrað þá skoðun sína að honum finnist að sameina eigi þessi tvö sveitarfélög og Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar í Kópavogi, tekur undir með Jóni. Ármann er hins vegar algjörlega á móti þeirri nálgun.

Meirihlutann í bæjarstjórn Kópavogs mynda Samfylking, Vinstri græn, Næst besti flokkurinn og Listi Kópavogsbúa, en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru í minnihluta.

Ármann bendir á að niðurstöður rannsókna hafa sýnt að kjörstærð sveitarfélaga eru þau sem eru með í kring um fimmtíu þúsund íbúa. Þegar sveitarfélög eru orðin stærri en það þarf að koma upp sérstökum stjórnsýslustofnunum og stjórnunarkostnaður eykst.

Íbúafjöldi Reykjavíkur er nú um 119 þúsund, í Kópavogi búa 30 þúsund manns, Garðbæingar eru 11 þúsund og Hafnfirðingar 26 þúsund. Á Álftanesi eru síðan um 2500 íbúar.

Meðal þess sem Jón Gnarr nefndi sem kost sameiningar Reykjavíkur og Kópavogs var að ef af því yrði þá þyrftu Reykvíkingar ekki að fara í annað sveitarfélag til að versla í Smáralindinni.

„Þetta var nú væntanlega grín hjá Jóni en borgarstjórinn má auðvitað ekki láta það trufla sig þó Smáralindin sé í öðru sveitarfélagi því við bjóðum hann auðvitað velkominn til okkar eins og alla aðra gesti," segir Ármann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×