Innlent

Fíkniefnahundur fann 300 grömm af grasi í bíl sem valt

Boði Logason skrifar
Í bíl piltsins fundust 300 grömm af kannabisefnum en hann hafði lent í umferðaróhappi.
Í bíl piltsins fundust 300 grömm af kannabisefnum en hann hafði lent í umferðaróhappi. Mynd/Páll Bergmann
Fíkniefnahundur lögreglunnar á Blönduósi fann 300 grömm af kannabis sem var falið í innréttingu bíls sem valt sunnan við Blönduós í gærkvöldi. Ökumaður bílsins slasaðist ekki og bifreiðin er ekki mikið skemmd. Það var þó ýmislegt í fari ökumannsins sem vakti grunsemdir lögreglunnar.

Ökumaðurinn var færður á lögreglustöðina á Blönduósi þar sem hann gaf sýni, sýnið gaf til kynna að hann væri að aka undir áhrifum fíkniefna. Pilturinn, sem er á tvítugsaldri, var spurður hvort hann væri með fíkniefna meðferðis. Hann neitaði því og við fyrstu athugun í bílnum fundust engin fíkniefni né eitthvað athugavert í bílnum hans.

Ákveðið var að fíkniefnahundurinn Freyja myndi leita í bílnum svo að lögreglumenn hefðu þá örugglega leitað af sér allan grun um að nokkuð væri í bílnum. Skömmu eftir að Freyja hóf að þefa af bílnum gaf hún til kynna að fíkniefni gætu verið falin innan við innréttingu bílsins. Því hófust lögreglumenn við að fylgja eftir vísbendingum Freyju.

Í innréttingu bílsins fundust nokkrir plastpokar fullir af kannabisefnum og er magnið áætlað 300 grömm. Pilturinn var í yfirheyrslum fram eftir nóttu en hefur nú verið sleppt úr haldi. Ýmsir þættir málsins eru þó enn í rannsókn.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að fundurinn teljist með stærri málum sem lögreglan á Blönduósi hafi upplýst. „Ljóst er að fíkniefnahundurinn Freyja skipti sköpum í uppljóstrun þessa máls og eru lögreglumenn í skýjunum yfir þessum árangri," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×