Skoðun

Eldri borgarar mótmæla

Landssamband eldri borgara mótmælir harðlega þeirri ósvífni stjórnvalda, sem kemur fram í niðurskurði hvað varðar hjúkrunarheimili fyrir aldraða og öryrkja og lyfjakostnaði sömu hópa. Þá mótmælir sambandið því samráðsleysi, sem viðgengst á flestum sviðum hvað þessi mál varðar og virðist einnig einkenna margar ráðstafanir þessarar ríkisstjórnar. Krefjumst við breytinga þar á.

Við teljum lágmarks kurteisi að fólk sé virt viðtals. Landssamband eldri borgara leggur jafnframt megináherslu á að fjárforræði aldraðra sé virt enda telst það til grundvallar mannréttinda. Það er óviðunandi að þeir sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum hafi ekkert um sín fjármál að segja en fái þess í stað skammtaða vasapeninga. Því krefst LEB þess að núverandi greiðslufyrirkomulag á öldrunarstofnunum verði lagt niður og fjárhagslegt sjálfstæði aldraðra verði tryggt.

LEB leggur jafnframt áherslu á að fjölga þjónustu- og búsetuúrræðum aldraðra. Þannig eiga þeir sem þess óska að geti dvalið sem lengst á heimilum sínum og fá þar sem besta þjónustu, án þess að íþyngja fjölskyldum sínum. Jafnframt er lögð áhersla á að þeir sem þess óska geti dvalið á sambýlum þar sem hugað er að andlegum, tilfinningalegum, félagslegum og líkamlegum þörfum þeirra.

Þá mótmælir LEB því að svo virðist sem taka eigi upp gömlu hreppaflutningana á ný, en þeir voru aflagðir 1937 en nýjasta dæmi um það var varðandi öldrunarstofnunina Sólborg á Flateyri undir yfirskyni sparnaðar. Sparnaðurinn er fyrst og fremst fólginn í því, að losa ríkið undan ýmsum greiðslum. Í staðinn borgar gamla fólkið og öryrkjarnir, sem ekki geta bætt sér upp aukin útgjöld með því að auka tekjur sínar.

Höfundur er viðskiptafræðingur og formaður Landssambands eldri borgara.




Skoðun

Sjá meira


×