Innlent

Starfsmannafjöldinn þrefaldist - fjárþörf dómstóla einnig metin

Gert er ráð fyrir því að starfsmannafjöldi hjá sérstökum saksóknara þrefaldist frá því sem nú er og verði allt að 80 manns en ríkisstjórnin hefur samþykkt að stórauka fjárveitingu til embættisins og verður fimm milljörðum veitt allt í allt til embættisins. Í greiningu á kostnaðarþáttum sem embættið skilaði inn er gert ráð fyrir að meginþungi rannsókna verði á árunum 2010-2011 og að þeim verði lokið að fullu á fyrri hluta ársins 2013.

Þá segir í greiningunni að gert sé ráð fyrir að fyrstu ákærur verði gefnar út í maí 2010 en meginþungi dómsmeðferðar verði á árunum 2012-2014. Með tilliti til mannréttindasjónarmiða sé nauðsynlegt að gera ráð fyrir að öllum málum verði lokið fyrir árslok 2014 og geta áætlanir að mati embættisins ekki tekið mið af öðru tímamarki.

Þá samþykkti ríkisstjórnin einnig í morgun að fela ráðuneytisstjórum forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis að meta nauðsynlegar fjárveitingar til þess að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna, einkum Hæstaréttar, í ljósi aukins málafjölda m.a. vegna bankahrunsins og stuðla þannig að tiltrú almennings á starfsemi þeirra.

„Einnig meti ráðuneytisstjórarnir nauðsyn þess að styrkja fjárhagslegar forsendur Fjármálaeftirlitsins til þess að sinna rannsóknum og eftirliti," segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti.






Tengdar fréttir

Sérstakur saksóknari fær milljarða til að ljúka rannsóknum

Embætti sérstaks saksóknara verður styrkt verulega með 470 milljóna aukafjárveitingu í ár og 960 milljóna fjárveitingum á næsta og þarnæsta ári. Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag. Heildarframlög til embættisins hafa því verið aukin gríðarlega en gert er ráð fyrir að saksóknarinn ljúki störfum árið 2014 og á því tímabili hafi það fengið fimm milljarða króna frá ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×