Innlent

Gríðarlegt tjón í miklum bruna

Mikill eldur kom upp í trésmíðaverkstæðinu Selósi á Selfossi á ellefta tímanum í gærkvöldi. Lagði þykkan illþefjandi reyk yfir bæinn og var útlitið ekki gott þegar slökkvilið kom á staðinn, sagði Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, rétt áður en Fréttablaðið fór í prentun.

Hann taldi líklegt að eldurinn hefði komið upp í lakkklefa. Ekki var talið að eldurinn næði að teygja sig í nærliggjandi byggingar, en röraverksmiðjan Set er í næstu byggingu við Selós.

Ekkert mat var hægt að leggja á hversu langan tíma tæki að ráða niðurlögum eldsins.

Axel Gissurarson, framkvæmdastjóri Selóss, var á vettvangi í gærkvöldi. Hann sagði að tólf starfsmenn ynnu hjá fyrirtækinu sem var hans aðaláhyggjuefni. Hann hafði ekkert leitt hugann að því hversu mikið tjónið væri. „En það er ömurlegt að horfa upp á þetta," sagði Axel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×