Innlent

Hanna Birna fer ekki í varaformanninn

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi borgarstjóri, hyggst ekki gefa kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi síðar í mánuðinum. Útlit er fyrir að tvær þingkonur muni berjast um embættið.

Enn sem komið er er Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sú eina sem lýst hefur því opinberlega yfir að hún gefi kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fram fer dagana 25. og 26. júní næstkomandi.

Tvær aðrar konur hafa verið nefndar sem kandídatar en það eru þær Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi borgarstjóri og Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi og starfandi formaður þingflokksins í fjarveru Illuga Gunnarssonar.

Margir hafa hvatt Ragnheiði Elínu til að bjóða sig fram og nú fyrir helgina hvatti stjórn Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, Ragnheiði til að taka slaginn.

Ragnheiður segist ætla að taka ákvörðun á næstu dögum um hvort hún gefi kost á sér en segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði í samtali við fréttastofu í fyrr dag að hún hygðist ekki gefa kost á sér í embætti varaformanns. Hanna Birna sagðist stolt af því hversu margir hefðu lýst yfir stuðningi við sig. Hún sagðist telja að framboði á þessum landsfundi yrði tekið sem einhvers konar vísbendingu um að hún stefndi á landsmálin. Svo væri hins vegar ekki því hún hefði fullan hug á því að starfa að málefnum Reykjavíkurborgar áfram og því myndi hún ekki gefa kost á sér í embætti varaformanns að þessu sinni.

Enginn hefur lýst yfir framboði gegn Bjarna Benediktssyni sitjandi formanni og því er allt útlit fyrir að hann verði sjálfkjörinn í embættið.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×