Innlent

Fréttaskýring: Ísland þykir hentugt fyrir umskipunarstöð

He Guoqiang, flokksritari í stjórnmálanefnd miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins, ræðir við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum um hádegisbil í gær. Tæplega 80 manns komu frá Kína til Íslands í tilefni af opinberri heimsókn flokksritarans.
He Guoqiang, flokksritari í stjórnmálanefnd miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins, ræðir við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum um hádegisbil í gær. Tæplega 80 manns komu frá Kína til Íslands í tilefni af opinberri heimsókn flokksritarans. Fréttablaðið/GVA

Fjöldi vísindamanna telur að íshellan á norðurpólnum sé að hverfa vegna hlýnunar sjávar. Hér heima eru allmörg ár síðan Þór Jakobsson veðurfræðingur tók að vekja athygli á þeim tækifærum sem bráðnun íssins hefði í för með sér fyrir siglingar. Þessa möguleika hefur Robert Wade, prófessor við London School of Economics, sagt skýra vinsamlegt viðhorf Kína til Íslands, smáríkis í norðri.

Robert Wade lýsir þessu viðhorfi í grein sem hann skrifaði í Financial Times í janúar 2008 um aukna þörf á reglusetningu fyrir skipaumferð eftir því sem hlýnaði á Norður-Íshafinu. Í lesendabréfi í mars á þessu ári áréttar hann svo skoðun sína og bendir á að Kína hafi gríðarlega hagsmuni af því að komast með vöruflutningaskip um norðurheimskautið, því leiðin sé miklu styttri en um Súesskurðinn eða odda Suður-Afríku.

Wade segir fyrirætlanir uppi í Kína um smíði sérstyrktra flutningaskipa til ferða um Norður-Íshafið.

„Farminn yrði svo að flytja í smærri skip sem færu með hann á endanlegan áfangastað. Hvar væri hægt að koma upp slíkri umskipunarhöfn? Eitt augljóst svar er á Íslandi," skrifar hann og bendir á að þetta kunni að skýra vinsemd, umfram það sem venjulegt geti talist, frá Kínverjum í garð Íslendinga.

„Kínverska sendiráðið er það langstærsta í Reykjavík," segir hann og vísar einnig til þeirrar viðhafnar sem Kínverjar hafi haft uppi þegar forseti Íslands fór í opinbera heimsókn til Kína árið 2007. Þá hafi Kína sýnt framboði Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna árið 2008 opinberan stuðning og hjálpað til við að afla stuðnings smærri ríkja í Kyrrahafi og Karíbahafi við framboðið.

Fleiri hafa orðið til að fjalla um áhuga Kínverja á Íslandi í þessu samhengi, svo sem einn dálkahöfunda Newsweek, William Underhill, í mars síðastliðnum. Þá sagði Þórður Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingarstofu Íslands, að töluvert hafi verið um fyrirspurnir frá Kína um fjárfestingarmöguleika á Íslandi, en helst í tengslum við orkufrekan iðnað.

Engin formleg fyrirspurn hafi borist um fjárfestingar í hafnaraðstöðu. „Enda er kannski of snemmt að vera að spá í slíkt þar sem töluverður tími er í að norðurskautsleiðin verði opin allt árið," sagði Þórður á þeim tíma, en kvaðst um leið vita af áhuga Kínverja á að smíða flota risavaxinna flutningaskipa til að sigla á þeirri leið í framtíðinni.

Ísland er þó ekki eini kosturinn hvað varðar staðsetningu fyrir umskipunarstöð. Nú þegar er til dæmis öll aðstaða fyrir hendi í Rotterdam í Hollandi.

Ísland er hins vegar aðili að Norðurskautsráðinu, en það er samstarfsvettvangur þeirra landa sem liggja á eða að norðurslóðum. Þá hafa allmörg lönd fengið áheyrnaraðild að ráðinu og hefur Kína þegar sótt um slíka aðild.

Hagsmunir ríkja ráðsins eru ólíkir, en líklegt er að tekist verði á um reglur fyrir fraktflutninga yfir norðurpólinn á vettvangi ráðsins. a




Fleiri fréttir

Sjá meira


×