Handbolti

Okkur hefur gengið vel með "Júggana" á stórmótum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar hér í síðasta leik á móti Serbum á stórmóti sem var á EM 2006.
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar hér í síðasta leik á móti Serbum á stórmóti sem var á EM 2006. Mynd/AFP

Íslenska karlalandsliðinu í handbolta hefur gengið vel með landslið Júgóslava og seinna Serbíu á stórmótum í gegnum tíðina og hefur ekki tapað fyrir þeim á HM, EM eða Ólympíuleikum í níu ár. Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 19.15 og verður fylgst vel með gangi mála á Vísi.

Það eru liðin 26 ár frá fyrstu viðureigninni þegar Strákarnir okkar náðu jafntefli á móti verðandi Ólympíumeisturum Júgóslava í fyrsta leik á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984.

Ísland hefur alls leikið átta leiki á móti Júggum á stórmótum, unnið fjóra þeirra, gert tvö jafntefli og tapað aðeins tveimur leikum.

Strákarnir okkar hafa unnið síðustu þrjá leiki sína á móti Júggum þar af tvo þá síðustu með fimm marka mun. Síðasta tap íslenska handboltalandsliðsins fyrir Júggum á stórmóti kom á HM í Frakklandi fyrir níu árum.

Þess má reyndar geta að íslenska landsliðið náði ekki að vinna Júgóslava á stórmótum á meðan Júggarnir nutu liðsinnis Króata og íslenska landsliðinu hefur jafnframt ekki tekist að vinna Króata í tveimur tilraunum á stórmótum (töp á ÓL 2004 og EM 2006) síðan að þeir fóru að keppa undir sínum þjóðfána.

Ísland á móti "Júggunum" á stórmótum

ÓL 1984

Júgóslavía 22-22 jafntefli

ÓL 1988

Júgóslavía 19-19 jafntefli

HM 1990

Júgóslavía 20-27 tap

HM 1997

Júgóslavía 27-18 sigur

HM 2001

Júgóslavía 27-31 tap

EM 2002

Júgóslavía 34-26 sigur

HM 2003

Júgóslavía 32-27 sigur

EM 2006

Serbía og Svartfjallaland, 36-31 sigur








Fleiri fréttir

Sjá meira


×