Innlent

Strandsiglingar álitlegur kostur til vöruflutninga

Lagðir eru til vöruflutningar milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Lagðir eru til vöruflutningar milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Strandsiglingar eru álitlegur kostur fyrir vöruflutninga á Íslandi. Þetta er meginniðurstaða skýrslu starfshóps samgönguráðuneytisins sem kynnt var í gær.

Stungið er upp á þremur mögulegum siglingaáætlunum í skýrslunni, en ein þeirra er talin sérstaklega álitleg. Sá kostur felur í sér siglingu á milli Reykjavíkur og Akureyrar með viðkomu á Ísafirði. Hugsanlega væri einnig komið við á Sauðárkróki og Patreksfirði. Gert er ráð fyrir að slík sigling tæki fimm daga og sennilegt þykir að töluverður sparnaður fylgdi því að nota þessa flutningsleið borið saman við flutninga á landi.

Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði á blaðamannafundi sem haldinn var af þessu tilefni að til væru áhugasamir aðilar í landinu sem hefðu mikið rætt við sig um strandsiglingar. Sagðist hann vonast til þess að einhver þeirra væri tilbúinn til að fara í verkefnið á markaðslegum forsendum en að hið opinbera þyrfti að huga að málinu með umhverfis- og umferðaröryggismál í huga auk þess sem minna slit á vegum myndi að mati skýrsluhöfunda spara hinu opinbera 200 milljónir á ári.

Strandsiglingar á Íslandi lögðust af árið 2004 og mestallir þungaflutningar fara nú fram með vörubílum. Rætt hefur verið um endurupptöku þeirra allar götur síðan. Samgönguráðherra sagði í dag að skýrslan ætti að klára þá umræðu og vonaðist eftir að niðurstaðan yrði sú að þetta væri hægt. „Annað­hvort komum við strandsiglingum í gang núna eftir þessa skýrslu eða við viðurkennum bara að það sé ekki hægt.“ - mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×