Handbolti

Björgvin: Viljum helst spila í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Björgvin Páll í markinu í gær.
Björgvin Páll í markinu í gær. Mynd/Leena Manhart

Björgvin Páll Gústavsson sagði að það hefði verið erfitt að sofna eftir leik Íslands og Serbíu á EM í handbolta í Austurríki í gær.

Ísland gerði jafntefli í leiknum, 29-29, eftir að hafa verið með forystuna allan leikinn og fjögurra marka forystu bæði í hálfleik og þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

„Við sváfum frekar illa og sofnuðum seint,“ sagði Björgvin þegar blaðamaður spjallaði við hann á hóteli liðsins í Linz í dag.

„En við áttum góðan fund áðan og við erum að ég held búnir að gleyma þessum leik. Nú eru menn farnir að kitla í puttana til þess að mæta Austurríki á morgun og svara fyrir okkur.“

„Við erum þó enn með þetta í hausnum að við töpuðum stigi í gær. Við höfum því skoðað hvað það er sem við þurfum að laga og það er fínt að við eigum enn tvo leiki eftir í riðlinum til að geta bætt fyrir mistökin. Við hefðum helst viljað spila þá í dag og og á morgun til að gleyma Serbaleiknum.“

„Mér líst því afskaplega vel á leikinn. Við erum vel stemmdir og þótt svo að við mættum til leiks í seinni hálfleik í gær eins og algerir aular þá bíða menn nú eftir tækifærinu til að fá að svara fyrir sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×