„Sú leið sem farin var þar sem vextir voru miklu hærri hér en á nágrannalöndunum bar feigð í sér," sagði Illugi. Hingað hafi borist mikið fé með svokölluðum jöklabréfum þegar vextirnir voru sem hæstir. Hið sama gerist ef vextirnir séu allt of lágir. Þá streymi fjármagn úr landi. Illugi sagði að það þyrfti að tengja saman fjármál ríkisins, fjármál sveitarfélaganna og Seðlabankann.

Það var Birkir Jón Jónsson, .þingmaður Framsóknarflokksins, sem var málshefjandi í umræðunum. Hann kallaði eftir lægri stýrivöxtum og að skipuð yrði þverpólitísk nefnd á Alþingi til þess að fara yfir peningastefnuna.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði að Seðlabanki Íslands væri sjálfstætt stjórnvald og Seðlabankinn væri sjálfstæður. Það þýddi að efnahags- og viðskiptaráðherra ætti helst ekki að vera að senda henni skilaboð um hvaða niðurstöður hann vildi fá frá henni. Hann sagði hins vegar að æskilegt væri að um Seðlabankann ríkti þverpólitísk sátt og hann skilinn frá hinu flokkspólitíska umhverfi. Hann tæki því vel í hugmyndir um myndun þverpólitískrar nefndar.