Innlent

Hvatning um lögbrot

Í Markaðnum fylgiriti Fréttablaðsins í dag birtist auglýsing þar sem auglýst er eftir erlendum aðilum sem eigi íslenskar krónur, ríkisskuldabréf eða aðrar eignir á Íslandi. Eru hlutaðeigandi beðnir að hafa samband í gegnum uppgefið netfang eða símanúmer, en auglýsingin er nafnlaus.

Seðlabankinn brást snarlega við þessari auglýsingu og kannaði hver stæði á bak við hana en grunur leikur á að þau viðskipti sem þarna eru auglýst kunni að vera brot á gjaldeyrishöftunum, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Símanúmerið sem gefið er upp er í Lúxemborg, en við nánari eftirgrennslan fréttastofu kom í ljós að númerið er í eigu Íslendings sem þar er búsettur.

Ef gjaldeyrisviðskipti eru þannig að það eru innlendir aðilar sem eiga evrur og erlendir aðilar sem eiga krónur er um að ræða gjaldeyrisviðskipti sem eru óheimil samkvæmt gjaldeyrishöftunum, en það kemur skýrt fram í 3. gr. reglna Seðlabankans um gjaldeyrismál. Undir þessa skilgreiningu fellur auglýsingin, en þarna er að því er virðist Íslendingur að hvetja útlendinga sem eiga krónur að eiga við sig viðskipti.

Fréttastofa reyndi í dag að hafa samband við númerið sem gefið var upp í auglýsingunni með það fyrir augum að ræða hugsanleg "viðskipti" eða spyrjast frekar út í þau viðskipti sem þar er lýst en enginn svaraði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×