Innlent

Þriðjungur landsmanna er í skóla

Færri nemendur heltust úr lestinni í framhaldsskólum landsins árið 2009 en undanfarin ár. Möguleg skýring gæti verið slæmt ástand á vinnumarkaði.fréttablaðið/gva
Færri nemendur heltust úr lestinni í framhaldsskólum landsins árið 2009 en undanfarin ár. Möguleg skýring gæti verið slæmt ástand á vinnumarkaði.fréttablaðið/gva

Um þriðjungur landsmanna er í skóla af einhverju tagi, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Alls eru 107.012 nemendur á landinu öllu, en landsmenn eru 317.593.

Flestir eru á grunnskólastigi, eða tæplega 43 þúsund. Í framhaldsskólum ríflega 26 þúsund og ívið fleiri eru á stigum ofar framhaldsskóla en í leikskóla; 19.020 í háskólunum en 18.699 í leikskólunum. Nemendum fjölgaði um 1,4 prósent, eða 1.529, frá árinu 2009.

Að sama skapi hefur skólasókn 16 ára ungmenna aukist; hefur verið 93 prósent undanfarin þrjú ár, en er núna 95 prósent. Nokkur munur er á skólasókn þessa aldurshóps eftir landshlutum. Mest er hún á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum, en þar stunda 97 prósent 16 ára ungmenna nám. Töluvert færri stunda nám á Suðurnesjum, en þar eru 92 prósent 16 ára ungmenna í skóla.

Tölur Hagstofunnar sýna einnig hve mörg ungmenni heltast úr lestinni eftir fyrstu árin í framhaldsskóla. Haustið 2009 var hlutfall 17 ára ungmenna í skólum landsins 90 prósent en hlutfall 18 ára 81 prósent. Skólasókn hefur því einungis minnkað um 3 prósentustig hjá þeim sem voru 16 ára 2008 og eru 17 ára haustið 2009 og um 12 prósentustig hjá þeim sem voru 16 ára 2007 og eru 18 ára 2009. Þetta er óvenju lítil fækkun nemenda milli ára. Nemendum á háskólastigi fjölgaði um 6,5 prósent á milli áranna 2008 og 2009. Flestir þeirra eru skráðir í greinar sem falla undir félagsvísindi, viðskiptafræði og lögfræði.kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×