Innlent

Aðdáendur þurftu frá að hverfa af blaðamannafundi Bjarkar

Fullt var út úr dyrum í Norræna húsinu nú fyrir stundu þegar blaðamannafundur Bjarkar Guðmundsdóttur hófst. Færri komust að en vildu en aðeins blaðamamönnum var leyfður aðgangur.

Björk kallaði til fundarins vegna kaupa Magma Energy á HS Orku sem hafa verið mjög umdeild þar sem kaupin fóru fram í gegnum skúffufyrirtæki Magma í Svíþjóð. Eftir að nýjar upplýsingar komu fram í málinu í síðustu viku ákvað Björk að blása til blaðamannafundar.

Blaðamaður Vísis sem staddur er á fundinum segir marga hafa staðið vonsvikna fyrir utan þegar tilkynnt var að fundurinn væri aðeins fyrir blaðamenn. Engu að síður hafi verið múgur og margmenni á blaðamannafundinum sjálfum þar sem fulltrúar erlendu pressunnar létu einnig sjá sig.

Ekki voru leyfðar spurningar á fundinum heldur reifaði Björk þær spurningar sem hún birti á heimasíðu sinni bjork.com í morgun og sagði þetta samviskuspurningar sem ríkisstjórnin þyrfti að svara. Björk hefur bent á að í ljósi þess hve sölu- og samningaferli í Magma-málinu hafi verið umdeilt og ógagnsætt, sé mikilvægt að umboðsmaður Alþingis taki það til skoðunar til að vita hvort hagsmuna almennings hafi verið gætt á fullnægjandi hátt.

Það voru svo Jón Þórisson arkítekt og aðstoðarmaður Evu Joly og Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur sem héldu tölu. Jón sagði meðal annars að það væri mikið í húfi ef ekkert væri að gert, það væri veislubragð í loftinu: „Nú skal grætt," sagði hann og vísaði til viðskiptahátta Magma Energy.

Björk lauk fundinum á því að syngja nokkur lög.












Tengdar fréttir

Björk syngur á blaðamannafundi

Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona mun syngja á blaðamannafundi í dag klukkan fjögur þar sem þar sem kynnt verður undirskriftasöfnun vegna áskorunar um orkuauðlindir Íslendinga. Mun hún flytja nokkur laga sinna í nýrri útgáfu.

1448 mótmæla Magma-kaupum

Á heimasíðunni orkuaudlindir.is skorar Björk Guðmundsdóttir á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku. Hún kynnir áskorun sína og syngur á blaðamannafundi síðar í dag.

Eru fjárfestar velkomnir?

Það er með nokkrum ólíkindum að stjórnvöld í ríki, sem þarf eins nauðsynlega á erlendri fjárfestingu að halda og Ísland, skuli leggja jafnmikið á sig og raun ber vitni til að hrekja erlenda fjárfesta frá landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×