Innlent

Nágrannar deila um eyðingu kakkalakka

Eitt kvikindið sem gert hefur sig heimakomið á Fróni.
Fréttablaðið/Vilhelm
Eitt kvikindið sem gert hefur sig heimakomið á Fróni. Fréttablaðið/Vilhelm

Kakkalakkar sem illa gekk að losna við úr fjölbýlishúsi einu enduðu inni á borði úrskurðarnefndar húsnæðismála.

Kona ein sem bjó í ónefndu fjölbýlishúsi hér á landi kallaði sjálf til meindýraeyði til að freista þess að ráða niðurlögum kakkalakka sem lifað höfðu af þrjá atlögur meindýraeyðis á vegum húsfélagsins. Konan krafðist þess að húsfélagið greiddi fyrir þjónustu meindýraeyðisins sem hún pantaði en það vildi húsfélagið ekki.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segi að konan hafi ætlað að flytja en „hafi ekki viljað flytja kakkalakkana með“. Hún hafi því látið formann húsfélagsins vita að kakkalakkarnir væru komnir aftur og að það þyrfti að eitra fyrir flutningsdag svo kakkalakkar myndu ekki fylgja með húsbúnaðinum. Það hafi síðan verið neyðarúrræði hjá henni að kalla til meindýraeyði því sá sem formaðurinn pantaði hafi ekki mætt á staðinn. Formaðurinn neitaði að greiða reikning viðkomandi meindýraeyðis.

Í máli konunnar og húsfélagsins var síðan teflt fram ýmsum rökum og rakti hvor aðili sína sýn á málavexti um kakkalakkana og meindýraeyðana. Lyktir málsins urðu þær að úrskurðarnefndin taldi húsfélaginu ekki skylt að borga nýja meindýraeyðinum.

Guðmundur Björnsson, hjá Meindýravörnum Reykjavíkur, segir tilfelli með kakkalakka koma upp öðru hverju. Fyrst og fremst sé um að ræða dýr sem berist með sendingum erlendis frá eða farangri fólks úr utanlandsferðum. Erfitt geti verið að eyða slíkum meindýrum.

„Það er aldrei hægt að segja að það verði hundrað prósent árangur en yfirleitt hefst þetta þó að lokum,“ segir Guðmundur sem kveður lítið sem fólk geti sjálft gert nema gæta þess að bera ekki pöddurnar með sér.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að tvær tegundir kakkalakka þekkist á Íslandi; þýski kakkaklakkinn og sá ameríski. „Kakkalakkinn lifir alfarið innanhúss sem afar hvimleitt meindýr og leggst á flest sem tönn á festir, spillir og óhreinkar. Þar má telja matvörur af öllu tagi, dauð dýr og plöntur, leður, lím, veggfóður, textílvörur og hvað eina sterkjuríkt. Auk þess að éta og naga óhreinkar hann mikið með saur sínum og illum þef,“ segir stofnunin um þetta óvelkomna dýr. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×