Innlent

Formaður fulltrúaráðsins vísar orðum bæjarstjórans á bug

Óttar Felix.
Óttar Felix. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi vísar á bug orðum Gunnsteins Sigurðssonar, bæjarstjóra og oddvita sjálfstæðismanna, um að togstreita og óróleiki sé meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ekkert sé fjærri sannleikanum.

Gunnsteinn tók við sem bæjarstjóri í Kópavogi í júní eftir óróleika í bæjarpólitíkinni sem varð til þess að Gunnar Birgisson lét af embætti bæjarstjóra og tók sér hlé frá störfum sem bæjarfulltrúi.

Nú hefur Gunnsteinn ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi bæjarstjórnarkosningum. Ástæðan er óviðunandi togstreita og óróleiki í röðum sjálfstæðismanna í Kópavogi sem hann segir að hafi verið viðvarandi síðan í sumar. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sagði bæjarstjórinn ennfremur að Gunnar og stuðningsmenn hans hafi unnið gegn sér.

Þetta kannast Óttar Felix Hauksson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi, ekki við. „Ég vísa því líka á bug að það sé óróleiki og togstreita meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi. Þetta er ekki rétt."

„Gunnar er mjög vinsæll forystumaður," segir Óttar og bendir á að Gunnsteinn hafi skipað annað sæti á framboðslista sjálfstæðismanna í síðustu kosningum og Gunnar það fyrsta. Síðan þá hafi Gunnar stigið til hliðar vegna lífeyrissjóðsmálsins svokallaða en jafnframt gefið út að hann ætli að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Óttar telur líklegt að það hafi haft þau áhrif að Gunnsteinn sækist ekki eftir endurkjöri.

Fréttastofa reyndi að ná tali af Gunnari vegna málsins án árangurs.




Tengdar fréttir

Bæjarstjórinn stígur til hliðar vegna óróleika meðal sjálfstæðismanna

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna vegna komandi bæjarstjórnarkosninga. Ástæðan er óviðunandi togstreita og óróleiki í röðum sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu sem hefur verið viðvarandi síðan í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×