Innlent

Óvissa um hvaða lög gilda

Ríkislögmaður virðist ekki deila vissu forsetans um að eldri lög um Icesave taki gildi verði þau nýju felld.fréttablaðið/gva
Ríkislögmaður virðist ekki deila vissu forsetans um að eldri lög um Icesave taki gildi verði þau nýju felld.fréttablaðið/gva

Í yfirlýsingu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um synjunina, er fullyrt að felli þjóðin lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni, séu eldri lög um ríkisábyrgð, sem samþykkt voru í lok ágúst, áfram í gildi. Lögspekingar virðast ekki jafnvissir um þetta og forsetinn.

Í yfirlýsingu Ólafs segir: „Verði lögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, gilda þau að sjálfsögðu áfram. Verði úrslitin á annan veg, eru engu að síður áfram í gildi lög nr. 96/2009 sem Alþingi samþykkti 28. ágúst 2009 á grundvelli samkomulags við stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi, en þau fela í sér viðurkenningu Íslendinga á skuldbindingum sínum.“

Í minnisblaði fjármálaráðherra til forsetans, sem farið var yfir í aðdraganda ákvarðanatökunnar, er hins vegar sagt að með öllu sé óvíst hvort þau lög gangi í gildi. Ótvíræð ríkisábyrgð þurfi að vera til staðar, samkvæmt lagabókstafnum, til að þau taki gildi. „Ríkislögmaður getur ekki vottað að málið sé klárt…“ segir þar.

Björg Thorarensen, deildarforseti lagadeildar HÍ, sagði í samtali við Fréttablaðið að væru lögin felld yrðu lögin frá í sumar í gildi. Ríkisábyrgðin yrði hins vegar ekki virk. „Hún verður ekki virk nema fallist verði á fyrirvarana að öllu leyti af viðsemjendum.“ Hollendingum og Bretar hafa þegar hafnað hluta fyrirvara.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×