Innlent

Skortur á einangrun endar með stórslysi

Einangrunargangur á Litla-Hrauni. Tíu einangrunarpláss eru í fangelsum landsins. Þau eru fullsetin og vista þarf einangrunarfanga á lögreglustöðvum.
Einangrunargangur á Litla-Hrauni. Tíu einangrunarpláss eru í fangelsum landsins. Þau eru fullsetin og vista þarf einangrunarfanga á lögreglustöðvum.

„Við þurfum að fá að vita hvenær og hverjar úrbætur verða gerðar á einangrunarmálum fanga hér á landi. Annars endar þetta bara með stórslysi." Þetta segir Erlendur S. Baldursson, aðstoðarmaður forstjóra Fangelsismálastofnunar.

Síðdegis í gær sátu þrjátíu manns í gæsluvarðhaldi, þar af helmingur í einangrun. Fangelsismálastofnun hefur yfir að ráða samtals tíu einangrunarplássum. Í gær og fyrradag voru tíu manns úrskurðaðir í gæsluvarðhald og allir í einangrun. Flestir þeirra eru af erlendum uppruna. Í einangrun sitja ásamt fleirum fyrir þrír strokufangar, tveir íslenskir sem reyndu að strjúka af Litla- Hrauni fyrir nokkrum dögum og einn erlendur. Umræddir þrír strokufangar sæta þeim viðurlögum að vera í einangrunarvist í allt að hálfum mánuði.

Erlendur segir að af þessum tíu mönnum sem úrskurðaðir voru í einangrun á tveim síðustu sólarhringum sé pláss fyrir tvo til þrjá á Litla-Hrauni. Hina verði að vista á lögreglustöðvum þar til pláss skapist í fangelsum.

„Við erum með alltof fá einangrunarpláss, þegar svona kemur upp á eins og margoft hefur verið bent á," segir Erlendur. „Kerfið þolir því óskaplega lítið. Það er alltaf við suðumark og er alltaf pínt upp í efstu mörk. Ef upp kemur eitthvert brot þar sem margir eru úrskurðaðir í einangrun, þá höfum við einfaldlega ekki pláss, sem aftur þýðir að lögreglan þarf að snúast með þessa fanga um allar trissur."

Erlendur minnir á tillögur Fangelsismálastofnunar til úrbóta í þessum málum, sem nú liggja fyrir.

„Okkur vantar auðvitað nýtt fangelsi. Það er ekkert öðruvísi. Við getum ekki endalaust notað fangelsi sem halda hvorki vatni né vindi, eins og Hegningarhúsið," undirstrikar Erlendur.

„Í Bitru fáum við eitthvað um tuttugu afplánunarpláss en það hjálpar ekkert upp á einangrunarmálin, þar sem hafa þarf menn í haldi af því að þeir eru hættulegir eða vegna rannsóknarhagsmuna. Dómsmálaráðherra hefur stutt við þennan málaflokk eftir föngum og það ber að þakka. En fjárveitingarvaldið verður að fara að gera sér grein fyrir alvarlegri stöðu mála hér."

jss@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×