Innlent

Ríkisstjórnin afgreiddi frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þegar synjun forsetans lá fyrir á mánudag kom þingflokkur Samfylkingarinnar saman og fjallaði meðal annars um tilhögun væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. fréttablaðið/stefán
Þegar synjun forsetans lá fyrir á mánudag kom þingflokkur Samfylkingarinnar saman og fjallaði meðal annars um tilhögun væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. fréttablaðið/stefán

Ríkisstjórnin afgreiddi í gær fyrir sína parta frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ákvörðunar forsetans um að synja lögum Alþingis staðfestingar.

Sérstök lög verða sett um kosninguna og fær Alþingi frumvarpið til meðferðar á föstudag. Sem kunnugt er eru ekki til lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og kemur því til sérstakrar lagasetningar nú.

Í frumvarpinu er kveðið á um að dómsmálaráðuneytið skuli auglýsa atkvæðagreiðsluna einu sinni í Lögbirtingablaði og þrisvar sinnum í Ríkisútvarpinu, í síðasta lagi einni viku fyrir atkvæðagreiðsluna. Þá skal einnig birta spurninguna sem lögð verður fyrir kjósendur með auglýsingu í dagblöðum, auk þess sem vakin verður athygli á að frumvarpið til laganna og öll skjöl varðandi meðferð þess séu aðgengileg á áberandi stað á heimasíðu Alþingis.

Fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur: annars vegar stjórnarfrumvarp og hins vegar frumvarp þingmanna Hreyfingarinnar, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Þráins Bertelssonar.

Í stjórnarfrumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla - sem kemur til af synjun forseta - skuli fara fram innan tveggja mánaða frá synjun. Gert er ráð fyrir veigamiklu hlutverki dóms- og mannréttindaráðherra og -ráðuneytisins við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar á bæ skal kjördagur ákveðinn og orðalag og framsetning spurningar. Þá skal ráðuneytið senda öllum heimilum í landinu sérprentun laganna sem forseti synjaði staðfestingar. Ekki eru sett skilyrði um þátttöku eða lágmarksfjölda fylgjenda eða andvígra í frumvarpinu.

Í frumvarpi Hreyfingarinnar og fleiri þingmanna er gert ráð fyrir að sérstök Lýðræðisstofa, undir forystu umboðsmanns Alþingis, verði sett á fót og annist framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, ákveði efni og orðalag spurningar og kjördag. Þjóðaratkvæðagreiðsla vegna synjunar forseta á, samkvæmt frumvarpinu, að fara fram í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að lagafrumvarp er samþykkt.

Í framhaldi af synjun forseta á staðfestingu fjölmiðlalaganna 2004 fjallaði starfshópur ríkisstjórnarinnar, sem Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður fór fyrir, um mögulega tilhögun væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá var lagt til að spurningin yrði orðuð svo: Eiga lög nr. 48/2004, um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993, sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar, að halda gildi sínu?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×