Innlent

The Independent: Samskipti Breta við Íslendinga á pari við útlagaríki

Framkoma Breta við Íslendinga má líkja við gamaldags kúgun. Þetta segir í leiðara breska dagblaðsins The Independent í dag. Í leiðaranum sakar blaðið Breta um fantaskap gagnvart Íslendingum og segja afskipti breskra yfirvalda af Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gagnvart Íslandi helst líkjast kúgun.

Þá gagnrýnir leiðarahöfundur bresku ríkisstjórnina harðlega fyrir að beita hryðjuverkalögunum á íslenska banka í Bretlandi.

Framganga Lord Paul Myners, bankamálaráðherra Breta, gagnvart Íslandi í fjölmiðlum í Bretlandi, er einnig gert að umtalsefni í greininni. Þar segir að Myners hafi hótað Íslendingum öllu illu, meðal annars einangrun. Slík framkoma þekkist hinsvegar ekki í pólitískum samskiptum Breta við önnur ríki, nema þá helst útlagaríki eins og Zimbabwe eða Norður Kóreu, segir í Independent.

Framganga Breta er engum í hag segir í leiðaranum og vill leiðarahöfundur meina að hegðun breskra yfirvalda í málinu hafi einmitt fengið íslensku þjóðina til þess a rísa á afturlappirnar og mótmæla hástöfum. Fram kemur að Íslendingar séu sammála um að það þurfi að borga skuldina, það hafi hinsvegar gengið fram af Íslandi þegar Bretar, samkvæmt Independent, heimtuðu vítaverðan samning sem var Íslandi í óhag.

Leiðarahöfundur segir svo að lokum að Íslendingar eigi engra kosta völ - þeir þurfa að borga. En það hefði mátt komast hjá þessu öllu saman að mati leiðarahöfundar, hefðu bresk yfirvöld hafið fyrirbyggjandi aðgerðir áður en kreppan hófst. Þá segir leiðarahöfundur að niðurlæging stjórnvalda að hafa ekki tekist að koma í veg fyrir að staða Breta yrði svona slæm í kreppunni, hafi breyst í reiði sem beinist með ofbeldisfullum hætti að varnalausu nágrannaríki í norðri.

The Independent er álitið vinstra sinnað blað í Bretlandi en það tekur enga afstöðu til stjórnmálaflokka þar í landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×