Skoðun

Eigi skal höggva

Vífill Karlsson skrifar
Í Borgarfirði hefur þáttur menntamanna og menntastofnana verið athyglisverður og áberandi í gegnum tíðina. Verk Snorra Sturlusonar eru gjarnan tíunduð í þessu samhengi. Þá var athyglisvert skólastarf á Hvítárbakka á 19. öld. Upp úr miðri 20. öld störfuðu 5 skólar á framhaldsskólastigi: Samvinnuskólinn á Bifröst, Iðnskólinn í Borgarnesi, Reykholtsskóli, Húsmæðraskólinn á Varmalandi og Bændaskólinn á Hvanneyri. Þessir skólar áttu allir sín blómaskeið en þurftu seinna að berjast fyrir tilveru sinni. Allt of oft hefur verið vegið að þessu merka starfi. Jafnvel þó að eftir því hafi verið tekið að starfsemi þeirra, t.a.m. iðnskóla, hafi ýtt undir fjölgun iðnfyrirtækja í sínum heimabæjum á þeim tíma.

Samkvæmt nýlegri spurningakönnun (haust 2010) hefur vægi háskólamenntaðra einstaklinga aukist alls staðar á Vesturlandi frá árinu 2007 og er nú yfir landsmeðaltali á Akranesi, Hvalfirði og í Borgarfirði. Það er ekki sjálfgefið að það hlutfall sé svo hátt. Þetta er jarðvegur sem þarf að rækta.

Nútíma samfélagi verður ekki haldið úti á Íslandi ef við flytjum ekki inn vörur og þjónustu. Útflutningur er eina leiðin til að svo megi verða. Ferðaþjónusta, orkufrekur iðnaður og sjávarútvegur eru stundaðar dreift í kringum landið. Þessar greinar afla miklu meira en helmings allra útflutningstekna þjóðarinnar þó vaxtasprotar séu í fleiri greinum. Þá byggir afkoma þjónustugreina á afkomu útflutningsgreina og annarra frumvinnslugreina. Landbúnaður er dæmi um frumvinnslugrein sem er í sára litlum útflutningi. Þjónustugreinar eru nauðsynlegar öllum atvinnugreinum. Þær eru eins og olía á gangverkið.

Höfuðborgarsvæðið er móðir allrar þjónustu. Það er eðli og hlutverk borga, einkum höfuðborga. Þess vegna þrífast landsbyggðin og höfuðborgin hver á annarri þó svo annað mætti stundum halda af þjóðfélagsumræðunni. Landsbyggðin er í þessum skilningi bakhjarl höfuðborgarsvæðisins og höfuðborgarsvæðið útherji landsbyggðarinnar.

Það er ekki lífvænlegt ef menn grafa undan bakhjörlum sínum. Þess vegna verða stjórnvöld að fara mjög varlega í aðgerðir sem höggva nærri undirstöðum landsbyggðarinnar. Sjúkrahús, skólar og samgöngur eru dæmi um undirstöðuþætti í dreifðum byggðum. Því er mikilvægt að draga úr fjarlægð háskóla og atvinnulífs á landsbyggðinni stað þess að auka hana.




Skoðun

Sjá meira


×