Lífið

José González: Íslendingar uppteknir af tónlist, drykkju og partíum

José González treður upp með hljómsveit sinni Junip í Iðnó föstudagskvöldið 15. október á Airwaves-hátíðinni.
José González treður upp með hljómsveit sinni Junip í Iðnó föstudagskvöldið 15. október á Airwaves-hátíðinni.

Sænska hljómsveitin Junip með tónlistarmanninn José González í fararbroddi spilar í Iðnó föstudagskvöldið 15. október á Air­waves-hátíðinni. Þetta verður í þriðja sinn sem González spilar á hátíðinni. Síðast steig hann þar á svið fyrir fjórum árum og í bæði skiptin var hann einn með kassagítarinn og spilaði lög frá vel heppnuðum sólóferli sínum.

„Ég hlakka mikið til. Ég hef haldið tvenna sólótónleika þarna og ég elska þessa hátíð. Ég man að sumir Íslendingar höfðu hlustað mikið á EP-plötuna okkar Black Refugee og ég hugsaði með mér að það væri gaman að fara þangað með Junip einhvern tímann," segir González, sem á argentíska foreldra en er fæddur og uppalinn í Svíþjóð.

Junip var stofnuð árið 1998 og er einnig skipuð trommaranum Elias Araya og hljómborðsleikaranum Tobias Winterkorn. „Ég átti nokkur sólólög og spilaði þau stundum fyrir Elias. Hann lagði til að við prófuðum að spila þau með hljómsveit og þannig byrjuðum við," segir González.

„Ég og Elias höfðum þekkst síðan við vorum litlir. Við spiluðum saman í harðkjarnabandi og þekktum Tobias líka úr harðkjarnasenunni. Hann var söngvari í harðkjarnabandi í næsta bæjarfélagi."

Junip hefur á ferli sínum gefið út eina sjö tommu plötu og EP-plötuna Black Refugee, sem vakti athygli margra á sveitinni. Núna, fimm árum síðar, er fyrsta stóra platan, Fields, loksins komin út. „Þegar ég var að gefa út aðra plötuna mína ræddum við um hvort við ættum að gera eitthvað meira með Junip eða bara segja þetta gott. Við ákváðum að gefa hljómsveitinni alvöru tækifæri eftir að ég væri búinn að fylgja plötunni eftir," segir González.

Aðspurður segir hann að æfingarnar hafi gengið vel þrátt fyrir fimm ára hléið. „Um leið og við fórum að djamma hljómaði þetta vel. Það var dálítill léttir, því ég hélt að þetta gæti tekið einhvern tíma," segir hann og bætir við: „Mér finnst mjög gaman að gefa út öðruvísi tónlist en ég er að semja fyrir sjálfan mig. Það er öðruvísi stemning á tónleikum og miklu meira að gerast, enda erum við fimm á sviðinu. Þegar við vorum að taka upp plötuna ákváðum við að semja hana þannig að fleiri gætu spilað lögin á tónleikum. Fyrir mig hefur þetta verið sannkölluð tónlistarbomba. Ég hef fengið mikinn innblástur og er þegar byrjaður að semja ný lög bæði fyrir sjálfan mig og Junip."

González er langt í frá orðinn þreyttur á að heimsækja Ísland. „Ég hef komið þangað tvisvar en bara verið í stuttan tíma í hvort skiptið. Ég man að fólkið var mjög upptekið af tónlist, drykkju og partí­standi. Öllu á sama tíma. Það hafði mikil áhrif á mig og þetta var ljúfur tími þar sem ég hitti mikið af skemmtilegu fólki," segir hann. „Ég er þegar búinn að fara í Bláa lónið þannig að kannski leigi ég bíl og fer eitthvað út í náttúruna. En það kemur bara í ljós."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.