Lífið

Steinn Ármann og Davíð Þór fá fjórar stjörnur

Steinn Ármann, þéttur og vanmetinn leikari, er fyndinn í gríni eftir Ricky Gervais í Borgarleikhúsinu.
Steinn Ármann, þéttur og vanmetinn leikari, er fyndinn í gríni eftir Ricky Gervais í Borgarleikhúsinu.
Ármann og Þór þora

Leikhús ****

Villidýr/Pólitík

eftir Ricky Gervais

Þýtt og staðfært af flytjendum

Sviðsetning: Gunnar B. Guðmundsson

Fyrirbærið Hafnarfjarðarbrandarar öðlaðist nýja merkingu þegar hópur skólafélaga þar sunnan að tók að láta á sér bera í opinberu lífi. Þar fóru fremstir í flokki árshátíðarskemmtikrafturinn Steinn Ármann, þéttur og vanmetinn leikari, og Davíð Þór Jónsson, renglulegur lífskúnstner sem markaði sér skákir á ýmsum sviðum: textahöfundur, eilífur guðfræðistúdent og fullorðin sál frá unga aldri.

Saman eru þeir þessa dagana að flytja uppistand þýtt og umskorið frá enska grínistanum Ricky Gervais. Gervais er merkilegt fyrirbæri, síðsprottinn arftaki þeirrar kynslóðar breskra grínista sem nýlega var sýnt fram á að hafði lagt til örfá prósent af skets­um í Heilsubælið. Gervais stikar jaðarinn á hinu boðlega í sýningum sínum, fetar þröngt bil milli fordóma og ofboðs. Hann er trúr uppruna sínum, breskt samfélag, breskir og breyskir siðir eru hans akur. Og nú hafa menn talið það henta íslenskum markaðsaðstæðum að flytja tvær af þekktum efnisskrám hans yfir á íslensku.

Uppistand er þetta ekki lengur, heldur ekki eftirherma, því textinn sem gera má ráð fyrir að Davíð hafi umsnúið og aðlagað er býsna íslenskur og alþjóðlegur um leið. Stór hluti af þessum húmor er sprottinn þegar menn stinga hausn­um í klofið á sér: blautt er það, og talið allt klámfengið. Ungum hóp áhorfenda á föstudagskvöldið var vel skemmt, alla vega strákunum, því mikið var hlegið og dátt. Hvort stelpunum var eins skemmt veit ég ekki: þetta er mikill tittlingahúmor, gaura­grín.

Steinn og Davíð eru báðir fyndnir menn, Davíð móralskur, Steinn meira absúrd, báðir orðnir þaulvanir að láta brandarann falla á réttum stað, þekkja andrúmið, kunna listina. Þeir þurfa ekki að láta hátt og mikið, spaugið er sett fram af öryggi, fumlaust, og leikið á salinn. Mér hefur alltaf þótt gaman að sjá þá segja brandara. Þeir eru fyndnir strákar. Víst hefði ég kosið að þeir settu saman sitt eigið efni, byggðu sitt eigið gervi í stað Gervais. Ég efast ekki um að þeir gætu það vel ef einhver tryði á þá í slíkt uppistand. Það mátti líka heyra á íslenskun efnis Bretans að þeir voru óhræddir að takast á við ósvífni um þekktar íslenskar persónur, Hannes Hólmstein og Jónínu Ben. Það var ekki græskulaust grín heldur grimmt.

Þeir eru báðir á sviðinu í senn í tvískiptu prógrammi en annar heldur sig til hlés meðan hinn blaðrar. Þeir eru mækaðir upp og það er löstur. Á föstudag lenti Steinn í vandræðum með mækinn sinn og hvað gerðist? Hann varð skýrari, tók betur um orðin, vandaði sig meira við flutninginn. Grínistinn þarf að tala beint og skýrt við áhorfendur. Það er partur af prógramminu, að kunna að hitta milli hlátranna, láta heyra í sér og verða að treysta á að talið heyrist af flytjandanum sjálfum. Í svo litlum sal sem Litla svið Borgarleikhúss er á ekki að nota mæk.

Þegar litið var á heimasíðu Borgarleikhúss kom í ljós að það kostar sitt að hlæja í tvo tíma; nýlegar fréttir um endurbyggingu Austurbæjarbíós benda til að þar skapist nýr vettvangur fyrir grín sem þetta og vonandi finna þeir Davíð og Steinn hjá sér löngun til að halda áfram á þessu sviði, gera sitt eigið efni um okkar eigið umhverfi, okkar eigin Hafnarfjarðarbrandara.

Páll Baldvin Baldvinsson

Niðurstaða: Klámfengið og gróft gaman flutt af mikilli list.

Hér má sjá stuttan bút úr sýningunni þar sem Steinn Ármann spáir í það þegar Guð fann upp kannabisplöntuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.