Innlent

Samstarf um bætta öryggismenningu í fiskiskipum

Á myndinni handsala Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, og Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, samkomulagið í morgun að viðstöddum nemendum á slysvarnanámskeiði í skólanum.
Á myndinni handsala Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, og Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, samkomulagið í morgun að viðstöddum nemendum á slysvarnanámskeiði í skólanum. Mynd: Hreinn Magnússon

VÍS og Slysavarnaskóli sjómanna hafa skrifað undir þriggja ára samstarfssamning sem felur í sér formlegt samstarf um bætta öryggismenningu um borð í fiskiskipum og um auknar forvarnir gegn slysum meðal sjómanna. Liður í samstarfinu er að VÍS mun afhenda Slysavarnaskóla sjómanna 10 flotgalla árlega næstu þrjú árin til að nota við kennslu í sjóbjörgun. Í tilkynningu frá VÍS segir ennfremur að tekið verði upp samstarf við útgerðir sem tryggja hjá VÍS með það að markmiði að sporna við slysum meðal sjómanna á fiskiskipum þeirra.

„Markmið verkefnisins er að efla öryggismenningu um borð í fiskiskipum og gera störf sjómanna þannig öruggari en þau eru í dag. Þetta verður m.a. gert með sameiginlegri skuldbindingu útgerða og sjómanna um að stuðla að breyttu viðhorfi og aukinni áherslu á öryggismál sjómanna. Gert verður áhættumat um borð í skipunum auk þess sem tekin verður upp skipuleg skráning á slysum og öllum atvikum þar sem legið hefur nærri slysum," segir einnig.

VÍS segir að til mikils sé að vinna í þessum efnum. „Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa árið 2009 var á því ári tilkynnt um 238 slys á sjómönnum til Tryggingastofnunar ríkisins, þar af voru tvö banaslys. Einungis 57 þessara slysa voru tilkynnt til rannsóknarnefndar sjóslysa. Að meðaltali hefur verið tilkynnt um 340 slys á sjómönnum á ári til Tryggingastofnunar síðustu 10 ár. Eitt af mikilvægum markmiðum samstarfs VÍS og Slysavarnaskóla sjómanna er að efla skráningu og tilkynningar slysa um borð í fiskiskipum, enda er það forsenda úrbóta og fyrirbyggjandi aðgerða. "










Fleiri fréttir

Sjá meira


×