Innlent

Þremur Hollendingum sleppt - fjórir í haldi í Hollandi

Breki Logason. skrifar

Þremur Hollendingum, sem handteknir voru á Seyðisfirði í tengslum við smygl á þremur tonnum af hassi, var sleppt í gærkvöldi. Fjórir eru í haldi í Hollandi vegna málsins.

Mennirnir komu til landsins á laugardag á þessum 100 tonna stálbáti sem skráður er á Saint Vincent eyjuna í Karíbahafi. Báturinn var nokkuð laskaður þegar hann kom til hafnar og var aftari mastur hans meðal annars brotið, auk þess sem hann er töluvert rispaður á annarri hliðinni. Ítarleg leit var gerð um borð þar sem notast varið fíkniefnahunda og kafara. En engin fíkniefni fundust.

Ef marka má fréttir úr hollenskum fjölmiðlum, var strandgæslan við reglubundið eftirlit í norðursjó á föstudag þegar þeir urðu varir við skútuna úr lofti. Haft var samband við áhöfnina en skýringar þeirra á veru sinni þar vöktu upp grunsemdir.

Á laugardag var síðan farið um borð og fundust þá tonnin þrjú, en fjögurra manna áhöfn skútunnar var í kjölfarið handtekin. Yfirheyrslur leiddu síðan í ljós að hugsanlega ætti annað skip hlut að máli.

Karl Steinar Valsson yfirmaður fíkniefndadeildar vill lítið tjá sig um málið, en segir að ekki hafa verið talið nauðsynlegt að halda mönnum lengur.

Hann vill ekkert gefa upp um aðkomu bátsins á Seyðisfirði við málið í Hollandi en eftir því sem fréttastofa kemst næst er grunur um að fíkniefnin hafi verið flutt úr bátnum yfir í skútuna úti á sjó. Skemmdir á skipinu bendi til þess. Ekki fæst uppgefið hvaðan skipið var að koma.

Hollendingarnir á Seyðisfirði sögðust vera á leið til Grænlands en þeir eru nú frjálsir ferða sinna. Þeir fara þó ekki langt á skipinu þar sem það er ekki haffært.

Rannsókn er enn í fullum gangi, þrátt fyrir að mönnunum hafi verið sleppt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×