Innlent

Vongóður um að meirihlutasamstarf náist í Kópavogi

Viðræðum á milli Næst besta flokksins í Kópavogi, Lista kópavogsbúa, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er lokið en fyrirhugað er að halda annan fund í kvöld.

Samkvæmt Hjálmari Hjálmarssyni, oddvita Næstbesta flokksins og leikara, þá er fátt sem mun koma í veg fyrir að meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarlokksins sé fallinn.

„Það er sterkur vilji til þess að mynda meirihluta og það ber ekki mikið í milli," segir Hjálmar sem náði óvænt kosningu í Kópavogi en á tímabili leit allt út fyrir að flokkurinn næði tveimur mönnum inn en ekki varð úr því þegar öll atkvæðin höfðu verið talin.

Það er Samfylkingin sem bauð til viðræðnanna. Ekki hefur verið hafin vinna að málefnasamningi á milli flokkanna og ekki hefur verið rætt um það hver verður næsti bæjarstjóri að sögn Hjálmars.

Spurður hvort það sé undarlegt að vera kominn í hlutverk stjórnmálamannsins segir Hjálmar að það sé ekki jafn sérkennilegt og við mætti búast.

„Við erum að reyna að breyta þessu öllu saman og hafa gaman af því í leiðinni," segir Hjálmar vongóður um að nýr meirihluti verði myndaður innan skamms í Kópavogi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×