Erlent

Svörtu ekkjurnar myrtu í Moskvu

Óli Tynes skrifar
Þessi mynd úr öryggismyndavél sýnir nokkur líkanna á Lublyanka brautarstöðinni.
Þessi mynd úr öryggismyndavél sýnir nokkur líkanna á Lublyanka brautarstöðinni.

Það voru tvær svartar ekkjur sem gerðu árásirnar á háannatíma í neðanjarðarlestarkerfi Moskvuborgar eldsnemma í morgun.

Önnur þeirra sprengdi sjálfa sig í loft upp á Lubyanka lestarstöðinni og fórust þar um 25 manns.

Hin sprengjan sprakk svo um 45 mínútum seinna á Park Kultury stöðinni og þar fórust að minnsta kosti tólf.

Margir tugir manna særðust auk þess í árásunum. Árásirnar voru gerðar á mesta annatíma og lestarstöðvarnar troðnar af fólki.

Svörtu ekkjurnar hafa áður tekið þátt í mannskæðum árásum í Rússlandi.

Árið 2004 sprengdu þær upp tvær farþegaflugvélar skömmu eftir flugtak frá Moskvu.

Þær gerðu tvær árásir á lestarkerfið og tóku þátt í árásinni á Beslan barnaskólann.

Hundruð karla kvenna og barna fórust í þessum árásum.

Svörtu ekkjurnar eru kallaðar svo því þær hafa flestar misst eiginmenn, eða ættingja í átökum við rússneska hermenn í Tsjetsníu.

Og þær eru tilbúnar til þess að deyja sjálfar til þess að geta drepið Rússa.

Þær eru flestar lítt menntaðar og því auðvelt fyrir islamska öfgamenn að fá þær til að hefna sín með þessum hætti.

Síðasta árið hafa verið á kreiki þrálátar fréttir um að verið sé að þjálfa upp mikinn fjölda kvenna til sjálfsmorðsárása.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×