Erlent

Allir þingflokkar styðja viðræðurnar

Þýska þingið Ísland þarf að gera ýmsar lagabreytingar til að fullnægja skilyrðum um aðild.Nordicphotos/AFP
Þýska þingið Ísland þarf að gera ýmsar lagabreytingar til að fullnægja skilyrðum um aðild.Nordicphotos/AFP
Þýska þingið fjallar um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á þingfundi fimmtudaginn 22. apríl. Daginn áður, þann 21. apríl, er reiknað með að Evrópunefnd þingsins taki málið til lokaafgreiðslu.

Samkvæmt upplýsingum frá þýska þinginu er gert ráð fyrir því að ítarlegar umræður verði um málið á þingfundinum. Allir þingflokkar hafa lýst yfir stuðningi við að aðildarviðræður við Ísland hefjist sem fyrst.

Í þingsályktunartillögu stjórnarflokkanna segir að Ísland þurfi að gera ýmsar lagabreytingar til þess að fullnægja skilyrðum um aðild, einkum á sviði fiskveiða, landbúnaðar, hvalveiða, fjármálaþjónustu, sveitarstjórnarmála og fjárlagagerðar.

Samkvæmt nýjum þýskum lögum, sem sett voru áður en Lissabon-sáttmáli Evrópusambandsins tók gildi í vetur, hefur þingið rétt til að láta afstöðu sína í ljós áður en ráðherra þýsku ríkisstjórnarinnar getur greitt atkvæði um það á vettvangi Evrópusambandsins.

Búist er við því að ráðherraráð Evrópusambandsins taki síðan ákvörðun í lok apríl eða byrjun maí um það, hvort hefja eigi aðildarviðræður við Ísland.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×