Erlent

Útgönguleið fyrir unga afbrotamenn

Átök glæpagengja hafa sett óskemmtilegan svip á mannlífið í Kaupmannahöfn á síðustu árum. nordicphotos/AFP
Átök glæpagengja hafa sett óskemmtilegan svip á mannlífið í Kaupmannahöfn á síðustu árum. nordicphotos/AFP
Undanfarin ár hafa blóðug átök milli glæpagengja í Kaupmannahöfn og víðar í Danmörku hvort tveggja vakið ótta almennings og magnað spennu víða í hverfum innflytjenda.

Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa nú gripið til þess ráðs að bjóða ungmennum sem leiðst hafa út á glæpabrautina útgönguleið, sem felst í því að þeim er hjálpað við að ljúka námi, finna sér atvinnu og útvega sér húsnæði með handleiðslu stuðningsfulltrúa frá borginni.

Nú þegar hafa 40 ungmenni þegið boðið en vonast er til þess að á hverju ári geti um hundrað manns nýtt sér þetta úrræði. Talið er mögulegt að ná til 400 ungmenna í glæpaheiminum, auk þess sem vinna inni í fangelsum gæti náð til enn fleiri. Danskir fjölmiðlar hafa í liðinni viku skýrt frá þessu verkefni, sem er í þann veginn að fara af stað eftir nokkurn undirbúningstíma.

Um framkvæmdina sér SSP, sem er samstarfsvettvangur skóla, félagsmálayfirvalda og lögreglu í Kaupmannahöfn.  „Það er mjög erfitt fyrir mörg ungmenni að fá atvinnu og það liggur þeim þungt á hjarta,“ er haft eftir Michael Melbye, framkvæmdastjóra SSP í Kaupmannahöfn, í danska dagblaðinu Berlingske Tidende. „Svo getur verið nauðsynlegt að hjálpa þeim með búsetu, svo þeir búi ekki hjá glæpafélögum sínum eða í bráðabirgðahúsnæði,“ segir hann einnig.

Sérstök áhersla er lögð á að hjálpa þeim að taka upp þráðinn í skóla og sjá til þess að þeir geti lokið námi. Það bæti mjög stöðu þeirra til þess að finna sér heillavænlega fótfestu í lífinu.

Meginhugmyndin er sú að það skili ekki fullnægjandi árangri að láta lögregluna eina um að berjast gegn glæpastarfsemi. „Við höfum áttað okkur á því að ef við tökum ekki á okkur ábyrgð og veitum þessu forystu, þá hjálpar það ekki mikið að segja að lögreglan eigi að leysa vandann,“ hefur Berlingske eftir Frank Jensen, borgarstjóra í Kaupmannahöfn. „Við verðum að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að ungt fólk fari inn í umhverfi glæpagengjanna og hjálpa þeim sem vilja komast út.“

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×