Skoðun

Skapandi skóli - menntun til framtíðar

Kristín Valsdóttir skrifar

Sveitarfélögin standa frammi fyrir átta milljarða tekjusamdrætti á næsta ári og vilja gjarnan spara með því að fækka kennslustundum á grunnskólastigi. Þessi umræða er ekki ný af nálinni og ljóst að einhversstaðar verður að þrengja að. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðaherra segist ekki hrifin af þeirri leið að fækka tímum. Ef sú verður engu að síður raunin vil ég benda á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Stefnumótun til framtíðar

Í grunnskólum og framhaldsskólum menntum við einstaklinga til framtíðar. Hver sem kemur að gerð námskrár og mótun skólastefnu hlýtur því að spyrja sig hverskonar menntun skilar nemendum hæfustum til að takast á við ófyrirsjáanlega framtíð?

Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvernig framtíð bíður þeirra sem nú eru í fyrstu bekkjum grunnskólans. Þegar þau fara á vinnumarkaðinn eftir 15 til 20 ár verður landslagið sennilega allt annað en í dag.

Þegar ég útskrifaðist fyrir 18 árum úr framhaldsnámi erlendis kvöddumst við skólafélagarnir, sem vorum víðsvegar að úr heiminum, með handskrifuð heimilisföng hver annars. Internetið, vefpóstur og hvað þá facebook eða twitter voru ekki í sjónmáli okkar tónlistarkennaranna, þó tölvunarfræðingar hafi kannski séð hilla undir breytingar.

Nám og kennsla á grunnstigi hefur að einhverju leyti breyst í samræmi við þessa þróun m.a. með breyttum kennsluháttum. Námskrár og tímamagn til hverrar námsgreinar hefur hins vegar lítið breyst. Upplýsingar um allt milli himins og jarðar eru nú aðgengilegar á netinu, samskipti heimshorna á milli eru leikur einn með nettengingum og tölvumyndavélum eða skype og svo mætti lengi telja.

Hvað eigum við þá að kenna börnunum okkar?

Hvaða eiginleika viljum við að þau þroski með sér?

Virðing - gleði - sköpun voru gildin sem valin voru á þjóðfundi um menntamál sem haldinn var fyrir réttu ári. Fundurinn setti líka fram fern meginskilaboð til menntayfirvalda.

1. Að efla samfélagsfærni barna.

2. Að samfélagið stuðli að samfelldum skóladegi/vinnudegi barna.

3. Að auka vægi verk- og listgreina í skólum.

4. Foreldrar taki virkari þátt í skólastarfi og beri með skólum ábyrgð á menntun barnanna.

Í frægum fyrirlestri á TED.com frá árinu 2006 segir Ken Robinson, sem hefur verið ráðgjafi fjölda ríkisstjórna og alþjóðasamtaka að loknum farsælum kennsluferli, að það menntakerfi sem við búum við í dag á Vesturlöndum snúist um að mennta háskólaprófessora. Afstaðan til þess að vinna með höndunum og nota líkamann sé í þeim anda að líkaminn sé fyrst og fremst nothæfur sem burðarstóll höfuðsins milli ráðstefna og fyrirlestra. Bók-menntun sé sett á æðsta stall - ofar öllu.

Ein afleiðing þessa að mínu mati er brottfall nemenda úr framhaldsskóla. Samkvæmt OECD skýrslu frá í september 2010 er Ísland í 29. sæti þegar borin er saman menntunarstaða einstaklinga á aldrinum 16 til 34 ára í Evrópulöndum. Viðmiðunin var að hafa lokið a.m.k. framhaldskólaprófi. Þó Íslendingar hafi bætt sig frá síðustu könnun höfðu önnur lönd gert enn betur því við færðumst niður um sex sæti - úr því 23. - frá síðustu könnun.

Samkvæmt sömu skýrslu eyðum við töluvert meiri peningum í grunnskólann en önnur Evrópulönd að meðaltali. Er þá kannski tími til að endurskoða hvernig við nýtum þessa peninga?

Stöldrum við - stöndum við stóru orðin.

Nú þegar við stöndum frammi fyrir hugsanlegum niðurskurði og breyttum áherslum innan grunnmenntunar er lag að standa við fallegu orðin. Fyrir þá sem helst vilja meta hagnaðinn út frá tölum þá má benda á að samkvæmt nýjustu útreikningum velta skapandi greinar jafnmiklu fé og stóriðjan.

Menntum ekki börnin okkar frá þeim möguleikum sem nú eru að nýtast á þessum þrengingatímum; tímum þegar Íslendingar prjóna sig og hanna í gengum kreppuna, keppast við nýsköpun og að setja á stofn sjálfbær sprotafyrirtæki til að sjá fyrir sér og sínum.

Ástæðan er ekki eingöngu þeir möguleikar sem það gefur á lifibrauði, heldur ekki síður vegna þeirrar vellíðunar og gleði sem fylgir því að skapa og vera fær um að finna eigin leið til velgengni, framfærslu og samskipta við aðra.

Hendum ekki út vinnubrögðum eða námsgreinum sem við fyrstu sýn virðast dýrust í framkvæmd eða hafa minna vægi samkvæmt nú- eða kannski frekar áðurgildandi gildismati. Eflum frekar aðstöðu og hæfni grunn- og framhaldsskólakennara til skapandi verkefnavinnu með nemendum sínum.

Stöldrum við og endurskoðum skólastarfið í ljósi þeirra gilda sem við segjumst vilja hafa að leiðarljósi. Sýnum viljann í verki, fjárfestum í unga fólkinu og eflum fjölbreytta hæfni, skapgerð og kunnáttu komandi kynslóða.






Skoðun

Sjá meira


×