Innlent

Icelandair með aukaflug til Boston

Eftir miklar tafir síðustu daga virðist vera mikil þörf á flugi frá Bandaríkjunum til Evrópu. Icelandair setti á aukaflug til Boston í dag til að ferja 60 strandaglópa vestur og flugið til baka er að fyllast.

Miklar tafir hafa verið á flugi til og frá Evrópu síðustu daga vegna veðurs. Um 60 farþegar sem millilentu í Keflavík á leið sinni frá Evrópu til Bandaríkjanna hafa verið strandaglópar hér á landi síðan um helgina. Til að bregðast við þessu ákvað Icelandair að setja á aukaflug til Boston í dag.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að öll flug næstu daga séu sneisafull. „Þannig að þetta var í rauninni þrautarlendingin að setja þetta flug á í dag og koma þessu fólki á leiðarenda. Þetta er líka tækifæri til að koma fragt út, vélin verður full af ferskum fiski væntanlega. Síðan er það til marks um aðstæðurnar að u.þ.b. klukkustund eftir að flugið kom inn í tölvukerfin í gærkvöldi var það nánast orðið fullt til baka. Það virðist hafa verið mikil þörf fyrir aukaflug í áttina að Evrópu út úr Boston," segir Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×