Innlent

Björgunarsveitin frá Íslandi fer fyrir hádegi

Gissur Sigurðsson skrifar
Rústabjörgunarsveitin á æfingu.
Rústabjörgunarsveitin á æfingu.

Í kjölfar jarðskjálftans mikla í Haítí ákvað utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörgu að bjóða fram aðstoð íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar, sem er sérhæfð í rústabjörgun.

Allir 36 liðsmenn sveitarinnar voru komnir í höfuðstöðvar Landsbjargar innan stundar. Sveitin var komin í viðbragðsstöðu strax um miðnætti og í nótt hafa liðsmenn verið að taka saman og fara yfir búnað sinn.

Búnaður sveitarinnar vegur tíu tonn, auk þess sem þrjú tonn af vatni verða með í för, fullkkominn fjarskiptabúnaður og vatnshreinsibúnaður. Með þessu getur sveitin starfað í heila viku án utanaðkomandi aðstoðar.

Svo vel vill til að þota frá Icelandair er á Keflavíkurflugvelli, án verkefna í dag, og er nú verið að búa hana til langferðar.

Björgunarmennirnir eru farnir til Keflavíkur , eftir að stjórnvöld í Haítí þáðu boð um aðstoð.

Er áætlað að þotan fari í loftið klukkan tíu og fljúgi fyrst til Boston í Bandaríkjunum, taki þar eldsneyti og nýja áhöfn og haldi svo beint til Haiti.

Ekki er enn ljóst hvort alþjóðaflugvöllurinn þar er opinn, en örðum kosti verður lent í Dóminíska lýðveldinu og ekið þaðan til Haítí, sem er á sömu eyju.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×