Lífið

Væmið ljóðaslamm í febrúar

Vann ljóðaslammið síðast. Ásta Fann­ey Sigurðardóttir flutti vinnings­atriðið í fyrra með Ástríði Tómasdóttur.
Vann ljóðaslammið síðast. Ásta Fann­ey Sigurðardóttir flutti vinnings­atriðið í fyrra með Ástríði Tómasdóttur.

Þriðja ljóðaslamm Borgarbókasafns Reykjavíkur verður haldið föstudaginn 12. febrúar í aðalsafninu í Tryggvagötu. Að þessu sinni er þemað „væmni“, sem ætti að bjóða upp á fjölbreyttar hugleiðingar – fjarri kreppu og barlómi. Sem fyrr er ljóðaslammið ætlað ungu fólki og er skilgreint á afar opinn hátt sem eins konar ljóðagjörningur. Áherslan er ekki síður lögð á flutninginn en á ljóðið sjálft. Eina krafan er að flutt sé frumsamið ljóð eða stuttur prósi og hafa þátttakendur sýnt dansverk, ör-leikþætti, rapp, söng og leiklesin ljóð með myndefni svo eitthvað sé nefnt. Hefðbundinn ljóðaupplestur telst ekki vera ljóðaslamm.

Sigurvegarinn árið 2008 var Halldóra Ársælsdóttir með „Verðbréfadrenginn“. Það ár var þemað „spenna“. Í fyrra sigruðu þær Ásta Fanney Sigurðardóttir og Ástríður Tómasdóttir sem sviðsettu ljóðagjörninginn Eine kleine hrollvekja með áhrifaríkum hætti. Þemað var „hrollur“.

Fimm manna dómnefnd velur þrjú bestu atriðin. Í henni sitja fyrir hönd Borgarbókasafns Arngrímur Vídalín skáld og Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur. Aðrir eru Bragi Ólafsson rithöfundur, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona og Ragnheiður Eiríksdóttir tónlistarkona.

Ljóðaslammið er haldið í samstarfi við ÍTR og Rás 2 og skráningareyðublöð er að finna á öllum Borgarbókasöfnunum.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.