Lífið

Á eftir að sakna matarins hjá mömmu

Ingólfur Þórarinsson hefur fest kaup á sinni fyrstu íbúð í Reykjavík og yfirgefur þar með heimabæ sinn Selfoss í bili.Fréttablaðið/stefán
Ingólfur Þórarinsson hefur fest kaup á sinni fyrstu íbúð í Reykjavík og yfirgefur þar með heimabæ sinn Selfoss í bili.Fréttablaðið/stefán
„Þá er maður alfarið farinn að skjóta rótum í höfuðborginni,“ segir Ingólfur Þórarinsson, söngvari, leikari og fótboltamaður en hann festi nýverið kaup á sinni fyrstu íbúð. Íbúðin er í Gerðahverfi í Reykjavík og ætlar kappinn því endanlega að yfirgefa heimabæ sinn Selfoss. Íbúðina fær söngvarinn afhenta í byrjun desember og lofar hann innflutningspartýi fram í febrúar.

„Ég hef alltaf verið með annan fótinn á Selfossi hjá mömmu en nú er kominn tími til að standa á eigin fótum,“ segir Ingólfur, eða Ingó eins og hann jafnan er kallaður, og viðurkennir að þetta sé stórt fullorðinsskref fyrir sig.

„Maður á nú eftir að sakna Selfoss en ég verð duglegur að keyra yfir heiðina í heimsókn,“ segir Ingó og bætir við að matseldin eigi eftir að verða stærsta vandamálið í heimilishaldinu til að byrja með. „Ég get alveg viðukennt það að ég er ekki mikill kokkur og finnst eins og flestum strákum maturinn hennar mömmu bestur,“ segir Ingó og bætir við að uppskriftabók sé efst á óska-listanum yfir innflutningsgjafir. „Það eina sem ég kann er að sjóða pulsur svo allar matarráðleggingar eru vel þegnar.“

Þrátt fyrir að vera að yfirgefa Selfoss er Ingólfur staðráðinn í að halda áfram í fótboltanum en Selfoss féll á dögunum niður í fyrstu deild. „Ég ætla pottþétt að spila fótbolta næsta sumar en ég veit ekki alveg enn þá með hvaða liði. Það á eftir að koma í ljós,“ segir Ingó að lokum.

- áp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.