Innlent

Jóhanna gefur Steingrími svigrúm til að róa órólegu deildina

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Forsætisráðherra er þess fullviss að ríkisstjórnin nái að klára erfið mál eins og Icesave í þinginu þrátt fyrir hjásetu órólegu deildarinnar í VG, enda sé hún með meirihluta. Hún vill gefa Steingrími frið til að laga ástandið í eigin flokki.

Þingflokkur Vinstri grænna logar í illdeildum en þrír þingmenn sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga hinn 16. desember og gáfu út sérstaka yfirlýsingu í kjölfarið. Þá skrifaði starfandi þingflokksmaður harðorða greinargerð þar sem hann hrakti lið fyrir lið ástæður þremenninganna fyrir hjásetunni.

Eftir þetta fóru af stað fréttir um að bjóða ætti Framsóknarflokknum að styrkja ríkisstjórnarsamstarfið, enda voru fjárlögin aðeins samþykkt með 31 atkvæði. Og óvissa um stuðning a.m.k eins af þremenningunum í öðrum málum.

Samstarf við Framsókn „jólasaga"

„Ég held að þetta sé ein af þessum jólasögum sem ganga og það hefur ekkert verið rætt af hálfu forystunnar við neina hjá Framsóknarflokknum. Ég vil vekja athygli á því að við erum með meirihluta þrátt fyrir að óvissa sé um þrjá þingmenn hjá Vinstri grænum. Auðvitað hefur meirihlutinn veikst, og Vinstri grænir og formaður flokksins hefur beðið um svigrúm til að fara yfir baklandið í sínum flokki," segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

„Formaðurinn er með sinn fund 4. eða 5. janúar og þar ætla þeir að fara yfir stöðuna og við skulum vona að þeir komi samhentir út úr þessum fundi. En það er ekkert hæft í því að við séum að leita til annarra flokka."

Nokkur erfið mál bíða afgreiðslu þingsins, þar á meðal Icesave-málið, nú í janúar. Hefurðu trú á því að ykkur takist að ná því máli í gegn með öruggum meirihluta? „Já, ég hef það. Við vitum hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Það hafa allir flokkarnir staðið að þessu máli á þessu ári. Það vita allir að það er góður samningur á borðinu þannig að ég hef enga trú á öðru heldur en að sá samningur verði samþykktur," segir forsætisráðherra. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×