Lögreglu grunar að kveikt hafi verið í kjallara húss á Selfossi síðastliðið föstudagskvöld. Skömmu fyrir klukkan átta barst tilkynning um að að mikinn reyk legði frá fjölbýlishúsi við Austurveg 34. Reykkafarar fóru inn í húsið og fundu eld í þvottaherbergi í kjallara. Eldurinn var slökktur og húsið í framhaldinu reykræst. Engum varð meint af, að sögn lögreglu. Á jarðhæð hússins er verslun Tölvulistans og hárgreiðslustofa.
Lögreglan á Selfossi leitaði tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að rannsaka eldsupptökin. Svo virðist sem um íkveikju sé að ræða. Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir í og við húsið á tímabilinu frá klukkan 19 til 19:50 að hafa samband við lögreglu í síma 480-1010.
Grunur um íkveikju á Selfossi
