Enski boltinn

Wenger: Þeir verða að fara að tala saman í vörninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er nú farinn að tala um það opinberlega að sínir menn þurfti að fara tala betur saman inn á vellinum ef liðið ætlar sér að vinna langþráðan titil á þessu tímabili.

Wenger var mjög ósáttur með jöfnunarmark Wigan í 2-2 jafntefli liðanna í vikunni en með sigri hefði Arsenal-liðið jafnað Manchester United og Manchester City að stigum á toppnum. Það er hægt að sjá svipmyndir úr leiknum með því að smella hér fyrir ofan.

Jöfnunarmarkið var sjálfsmark varnarmannsins Sebastien Squillaci og kom eftir hornspyrnu og aðeins skömmu eftir að Wigan missti mann af velli.

„Það var engin ástæða til þess að láta þá hafa þetta horn sem gaf þeim síðan þetta sjálfsmark. Leikmenn í mínu liði verða að fara að tala meira saman. Það var engin ástæða til þess að fá á sig þetta horn ef menn hefðu bara talað saman. Við þurfum að fara bæta þetta," sagði Arsene Wenger í viðtali við Arsenal-sjónvarpsstöðina.

„Það er engin að taka að sér stjórnina og það er engin rödd sem rekur menn áfram ef einhverjir í liðinu missa einbeitinguna," sagði Wenger en næsti leikur liðsins verður á móti Birmingham á Nýársdag.

„Við verðum að koma strax til baka og ná aftur upp einbeitingunni. Leikmenn voru pirraðir eftir Wigan-leikinn og ég held að svona komi ekki fyrir aftur í vetur," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×