„Á stuttum tíma munum við fara um borð í tug skipa sem stunda karfaveiðar á Reykjaneshrygg. Fiskveiðieftirlit er eitt meginverkefni þessa skips, þótt það sé hluti af franska sjóhernum,“ segir Philippe Guéna, skipherra franska dráttarbátsins Malabar sem kom til hafnar í Reykjavík í liðinni viku.
Skipið hafði viðkomu í Reykjavík áður en haldið var til veiðieftirlits á Reykjaneshrygg á vegum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).
Malabar er annar tveggja öflugustu dráttarbáta franska sjóhersins og eru um fjörutíu manns í áhöfn. Uppistaðan er ungir menn og ein stúlka sem eru að afla sér menntunar í ýmsum fræðum sem tengjast sjómennsku. Skipherrann óttast ekki að stúlkan fái of mikla athygli frá öðrum áhafnarmeðlimum. „Ég lít heldur ekki á áhöfn skipsins út frá kyni, þetta eru allt sjómenn,“ segir skipherrann.
Um borð eru fiskveiðieftirlitsmenn á vegum NEAFC frá Englandi, Litháen og Frakklandi, en fjölþjóðlegur floti er við veiðar á Hryggnum nú eins og löngum.
Sem togbátur sinnir Malabar ýmsum verkefnum og eitt þeirra er að taka kafbáta í tog. Báturinn getur tekið skip upp að fimmtíu þúsund tonnum í tog, en það er háð veðri og vindum, segir Guéna skipherra. - shá
