Innlent

Forsetinn hafnaði fundi með forsætisráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson vildi ekki funda með Jóhönnu. Mynd/ Anton Brink.
Ólafur Ragnar Grímsson vildi ekki funda með Jóhönnu. Mynd/ Anton Brink.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra óskaði eftir því bréflega við forseta Íslands síðdegis á mánudaginn að eiga fund til að ræða við hann um væntanlega ákvörðun hans um afdrif Icesave-laganna. Forsetinn hundsaði þessa beiðni forsætisráðherra, eftir því sem fram kemur á fréttavefnum Pressunni.

Pressan segir að bréf forsætisráðherra hafi fylgt með greinargerð forsætisráðuneytisins til forsetans um mögulegar afleiðingar þess að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Í greinargerð þeirri kemur meðal annars fram að Bretar og Hollendingar hafi mikið um það að segja hvort ríkisábyrgðin um Icesave komi yfirleitt til þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi. Þeir geti litið svo á að frestir séu útrunnir og þannig fallið frá samningum sem lögin fjalla um.

Í greinagerðinni kemur fram að jafnvel megi líta svo á að Bretar og Hollendingar hafi mikla hagsmuni af því að Íslendingar hafni lögunum.

Eins og fram kom á Vísi í gær fullyrðir Jóhanna að hún og Ólafur hafi orðið ásátt um að Ólafur léti hana vita um afstöðu sína í Icesave málinu áður en hann tilkynnti hana í fjölmiðlum. Af einhverjum ástæðum hafi ekki orðið af því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×