Skoðun

Staðreyndir um launakjör bæjarstjórans í Hveragerði

Róbert Hlöðversson skrifar

Samkvæmt framlögðum ráðningasamningi eru mánaðarlaun bæjarstjóra Hveragerðisbæjar eftirfarandi:

  • Dagvinnulaun 487.498 kr./mán.
  • Föst yfirvinna 72 klst. á mánuði alla mánuði ársins sem gerir 364.536 kr./mán
  • Laun fyrir setu í bæjarstjórn, 66 þús. kr./mán.
  • Bifreiðarstyrkur 1.300 km akstur/mán. alla mánuði ársins gerir u.þ.b. 130.000 kr./mán.



Samtals eru því laun og hlunnindi bæjarstjóra Hveragerðisbæjar skv. ráðningarsamningi u.þ.b. 1.050.000 kr./mán.

Bæjarfulltrúar A-listans gera ekki athugasemdir við grunnlaun bæjarstjórans. Að greiða honum 72 klst. á mánuði í yfirvinnu eða 864 klst./ár er hins vegar með öllu óásættanlegt og móðgun við aðra starfsmenn bæjarins, sem verða að sætta sig við yfirvinnubann eða að taka út unna yfirvinnu í fríi. Af frádregnu orlofi og almennum frídögum eru u.þ.b. 222 lögbundnir vinnudagar í árinu. Það þýðir að bæjarstjórinn fær greiddar tæplega 4 klst. á dag í fasta yfirvinnu alla virka vinnudaga ársins. Bæjarfulltrúar A-listans telja eðlilegt að laun fyrir setu í bæjarstjórn séu innfalin í þessum yfirvinnugreiðslum, en svo er ekki því bæjarstjóranum eru greiddar 66 þús. kr./mán. aukalega fyrir bæjarstjórnarfundi.

Sjálfstæðismenn halda því fram að það sé hagstæðara fyrir Hveragerðisbæ að greiða bæjarstjóra bifreiðastyrk í stað afnota af bifreið sem bærinn rekur. Ekki er hirt um að rökstyðja þessa fullyrðingu. Hafi bæjarstjóri full afnot af bifreið bæjarins reiknast það til hlunninda sem greiða ber tekjuskatt af. Hve mikið honum ber að greiða er háð innkaupsverði bifreiðarinnar. Kjósi bæjarstjóri t.d. að aka um á 8 mkr. jeppa mundi hann þurfa að greiða úr eigin vasa u.þ.b. 90 þús. kr./mán., en helmingi minna fyrir 4 mkr. bíl. Bærinn greiðir hins vegar rekstur og fjármagnskostnað bílsins. Aki bæjarstjóri lítið og kjósi að aka um á dýrum bíl hagnast hann því meira á því að vera á eigin bíl og fá greiddan fastan bifreiðastyrk.

Þar sem bifreiðastyrkur er greiddur vegna afnota af eigin bíl í vinnutíma er eðlilegt að deila þessum 15.600 km á ári niður á lögbundna vinnudaga. Sé það gert þarf bæjarstjórinn að aka rúmlega 70 km/dag og fær greitt fyrir það u.þ.b. 7.000 kr. Aki hann á löglegum hraða eyðir hann u.þ.b. klukkustund á dag undir stýri í þágu bæjarins. Það er mikill akstur í einu landminnsta sveitarfélagi landsins.

Bæjarfulltrúar A-listans telja svona samningagerð skrípaleik. Bæjarfélaginu ber einungis að greiða fyrir þá yfirvinnu sem unnin er og fyrir akstur í þágu bæjarins samkvæmt framlagðri akstursdagbók. Þetta eru þær reglur sem aðrir starfsmenn bæjarins þurfa að lúta og sjálfgefið að sama gildi um bæjarstjórann.

Róbert Hlöðversson oddviti A-listans í Hveragerði.






Skoðun

Sjá meira


×