Lífið

Fjölskyldan sátt án sjónvarps

Þorsteinn les bækur og kíkir á netið, þrátt fyrir lélega nettengingu, í staðinn fyrir að horfa á sjónvarp.
Þorsteinn les bækur og kíkir á netið, þrátt fyrir lélega nettengingu, í staðinn fyrir að horfa á sjónvarp.

„Þetta er alltaf gaman. Mér skilst að þetta sé býsna vinsælt sjónvarpsefni," segir Þorsteinn Bergsson, bóndi á Unaósi á Fljótsdalshéraði. Hann keppir í annarri umferð í spurningakeppninni Útsvari í Sjónvarpinu á föstudagskvöld ásamt liðsfélögum sínum Ingunni Snædal og Stefáni Boga Sveinssyni.

Mótherjinn verður Kópavogur, hinn sami og sigraði Fljótsdalshérað í úrslitum í fyrra. Þorsteinn hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu með liði sínu og virðist sjónvarpsleysið á heimili hans því greinilega engu máli skipta. „Við höfum aldrei haft sjónvarp frá því að við byrjuðum að búa við hjónin. Ætli ég verði ekki að segja að okkur leiðist það heldur og ekki fer það batnandi eftir því sem tímarnir líða fram," segir Þorsteinn, sem er kvæntur Soffíu Ingvarsdóttur, kennara í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

„Okkur var sagt að við kæmumst ekki upp með þetta því við eigum börn sem eru tíu og þrettán ára og að þau myndu fara að heimta sjónvarp þegar þau yxu úr grasi. En það hefur nú ekkert gerst, þetta er bara þeirra veruleiki."

En hvað með Netið, er það til staðar? „Já, en við erum að vísu með mjög lélega tengingu en það stendur víst til bóta. Það verður mikil breyting," segir hann og bætir við: „Ég hef alltaf haft þá afstöðu gagnvart nýjungum að ég hef tekið það upp sem mér líkar og sleppt hinu. Maður á ekki að gleypa við öllu."

Þorsteinn segist hafa lesið mjög mikið þegar hann var yngri og hann búi að því í dag. „Þetta er held ég gamall banki sem ég er að ganga í. Það er einhvern veginn þannig að það sem maður les innan við tvítugt, það situr vel og þá las ég alveg reiðinnar býsn," segir hann og nefnir að allt sem snýr að náttúrunni sé sín sterkasta hlið í Útsvarinu. - fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.