Erlent

Ekki þorandi að ná í líkin

Við tíðindin af seinni sprengingunni féllu sumir aðstandenda námumannanna saman. Mynd/AP
Við tíðindin af seinni sprengingunni féllu sumir aðstandenda námumannanna saman. Mynd/AP
Þriðja sprengingin varð í dag í námunni á Nýja-Sjálandi þar sem 29 námuverkamenn fórust eftir fyrstu sprenginguna sem varð viku fyrr. Ekkert manntjón varð að þessu sinni, enda hefur náman verið mannlaus vegna hættu á sprengingum vegna eiturgufna sem lekið hafa inn í hana úr kolajarðlögum. Enn hefur ekki þótt þorandi að fara inn í göngin til að ná í lík mannanna sem fórust. Talið er að nokkrar vikur líði þangað til því verki lýkur.

Sprengingarnar voru afar öflugar og er talið öruggt að eldfimt eiturgas í göngunum hafi valdið sprengingunum. Gasið varð einnig til þess að björgunarmenn komust ekki inn í göngin til að bjarga þeim námuverkamönnum sem hugsanlega voru á lífi eftir fyrri sprenginguna.

Slysið er eitt versta námuslys í sögu Nýja-Sjálands. Námuvinnsla hefur verið stunduð þar í 114 ár og hefur hún kostað 210 manns lífið allan þann tíma, að meðtöldum þeim sem nú fórust í Pike Rivernámunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×